Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Misvísandi upplýsingar, afléttingarplön og uppistand

Mynd með færslu
 Mynd: Alþingi
Fyrirspurnir um áætlanir stjórnvalda varðandi bólusetningar og afléttingar sóttvarnaraðgerða voru mjög áberandi hjá þingmönnum, bæði úr stjórnarflokkum og stjórnarandstöðu, í umræðum um skýrslu heilbrigðisráðherra varðandi bólusetningar. Ráðherra flutti skýrsluna á Alþingi nú síðdegis. Alls hafa 10.435 manns fengið bólusetningu, að hálfu eða fullu leiti, en stjórnvöld stefna á að þorri þjóðarinnar verði bólusettur um mitt ár. Forseti Alþingis bauðst til að fara aftast í bólusetningarröðina.

4.789 búnir að fá báðar sprauturnar

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fór yfir alla helstu fleti varðandi stöðu bóluefna og bólusetninga á landinu. Búið að bólusetja 4.789 manns að fullu, með fyrri og seinni sprautunni, og 5.646 hafa fengið fyrri skammt. Samtals eru þetta 10.435 manns. 

Hún sagði skipulag bólusetninga og dreyfing efnanna ganga vel og er það í höndum sóttvarnarlæknis. Framkvæmdin sjálf er í höndum sjúkrahúsanna og heilsugæslustöðva um allt land. Bólusetning fer fram um leið og efnin berast til landsins og sagði Svandís það mjög mikilvægt, sér í lagi þar sem fregnir eru að berast erlendis frá um að efnin séu komin til hinna og þessa landa án þess að það sé farið að dreifa þeim til almennings. 

Svandís undristrikaði sömuleiðis að það hafi verið ákveðið í byrjun að halda eftir skömmtum fyrir óvænt atvik hér, til dæmis ef sjúklingur þarf skyndilega á bólusetningu að halda vegna sjúkdómsmeðferðar.  Þá er verið að útvega sprautur og nálar sem nýta bóluefnið betur. 

Mikilvægt að láta bólusetja sig

Ráðherra ítrekaði mikilvægi þess að láta bólusetja sig og undirstrikaði að ekki hafi verið hoppað yfir nein öryggisstig í þróun þess. Þetta sagði hún eftir að hafa farið yfir tilkynningar um aukaverkanir sem Lyfjastofnun hefur borist. 

Lyfjastofnun barst í gær tilkynning um andlát aldraðrar manneskju sem hafði fengið síðari bólusetningu gegn kórónuveirunni með bóluefni Pfizer og hafa nú átta andlátstilkynningar borist. Allt aldrað fólk með undirliggjandi sjúkdóma. Um 140 tilkynningar um mögulegar aukaverkanir hafa borist alls. 

Mynd með færslu
 Mynd: Alþingi - Alþingi (skjáskot)
Svandís sagði brýnt að bólusetja um leið og efnin koma til landsins.

Upplýsingabrestur og krafa um plön

Að skýrslu ráðherra lokinni stigu þingmenn í pontu með hinar ýmsu vangaveltur og spurningar. Ólafur Ísleifsson (Miðflokki) gagnrýndi uppýsingabrest ríkisstjórnarinnar og þær breytingar sem hafa orðið á bólusetningaráætlunum. Þá gaf hann lítið fyrir orð Svandísar um að þorri þjóðarinnar verði bólusettur um mitt ár. Svandís svaraði því til að alltaf sé byggt á þeim upplýsingum sem stjórnvöld hafa hverju sinni og þær upplýsingar breytist stundum, enda sé allur heimurinn á eftir því sama - bóluefni. „Þegar allar þjóðir vilja vita hvenær efnin koma, þá gætir meira óþols í samfélögum heimsins,” sagði Svandís. „Þessi áform taka breytingum og stundum hægja þau á, en stundum hraða þau. Það er ekki nóg með að við þurfum að halda áfram að sýna samstöðu, heldur líka þolgæði og úthald.” 

Sigríður Á. Andersen (Sjálfstæðisflokki) gagnrýndi starfshætti ríkisstjórnarinnar varðandi kaup á bóluefni og þá leið sem var ákveðið að fara, það er að segja samflot með ríkjum Evrópusambandsins. Hún sagði það liggja ljóst fyrir að það séu um 90 þúsund manns sem þurfa nauðsynlega á bólusetningu að halda og það væru ekki til næg efni til þess. Þá spurði hún Svandísi hvers vegna það hafi ekki verið óskað eftir 90 þúsund skömmtum frá öllum framleiðendum þar sem það liggi ekki fyrir hvernig efnin virka á mismunandi hópa. 

„Hvert er markmiðið með bólusetningunni? Hvað verður gert þá? Er þá ekki tilefni til róttækra breytinga í sóttvarnaraðgerðum?” 

Svandís sagði það sannarlega vera. „Jú, það er þess vegna sem við erum að bólusetja. Það er til að draga úr sóttvarnaraðgerðum innanlands. Það eru ráðstafanir sem hanga algjörlega saman, hvernig dregur úr hættunni á faraldrinum innanlands, hversu minni líkur eru á því að faraldurinn geri óskunda, bæði með heilsutjóni og andlátum, eftir því sem því vindur fram getum við dregið úr sóttvarnaraðgerðum. Ég vona að þingmaðurinn átti sig á því samhengi hlutanna.” 

Langt í land varðandi afléttingu

Helga Vala Helgadóttir (Samfylkingu) skaut á það sem hún sagði samskiptaleysi milli stjórnarflokkanna þar sem þær upplýsingar sem Sigríður hafi spurt eftir væru á minnisblaði til þingmanna. Þar segi meðal annars að það sé búið að semja um skammta fyrir 538 þúsund manns. „Það væri gott ef stjórnarandstaðan þyrfti ekki að miðla málum á milli stjórnarflokkanna.” Þá spurði hún út í plön stjórnvalda varðandi afléttingu sóttvarnaraðgerða. Svandís sagði afléttingar að öllum líkindum verða í öfugri röð við herðingar. „Það er mikilvægast af öllu að daglegt líf verði eins eðlilegt og hægt er. Nám, skóli, vinna,” sagði Svandís. „En þangað til, um langt skeið fram í framtíðina, svo lengi sem faraldurinn er í heiminum, munum við þurfa að gæta almennt að sóttvörnum.” 

Sara Elísa Þórðardóttir (Pírötum) spurði að því sama. Hvað stjórnvöld ætli að gera til að koma í veg fyrir enn frekara atvinnuleysi, laga efnahaginn og gæta að lýðheilsu. „Stendur til að skoða þessa þætti, setja fram sviðsmyndir og skoða hvenær hægt er að aflétta aðgerðum til að við getum átt íslenskt ferðasumar og fyrirtæki geti skipulagt sig?” 

Líneik Anna Sævarsdóttir (Framsóknarflokki) var á svipuðum nótum. Hún spurði hvort stjórnvöld væru byrjuð að teikna upp sviðsmyndir um afléttingar. Hvort það væri komið eitthvað viðmið varðandi fjölda bólusettra, hvaða hópar þurfi að vera komnir með bólusetningu, eða stig í smitstuðlinum eða eitthvað. Til að aflétta aðgerðum. 

Svandís sagði að sjaldan hafi verið jafn mikilvægt og nú að geta treyst því að þær upplýsingar sem maður fær séu réttar. „Varðandi mælikvarðana þá hefur forsætisráðuneytið og fleiri verið að vinna að slíku módeli, en þetta eru svo margir þættir sem spila saman.” 

Mynd með færslu
 Mynd: Alþingi - Alþingi (skjáskot)
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flokki fólksins) vildi loka landinu. „Það á að skella í lás á landamærunum, henda lyklinum og svo opna aftur þegar það kemur hjarðónæmi.”

„Ósköp var þetta nú Miðflokkslegt”

Andrés Ingi Jónsson (utan flokka) velti upp hvort það væri hægt að færa tiltekna hópa framar í bólusetningarröðina, eins og til dæmis þá sem standa höllum fæti félagslega og búa í búsetuúrræðum. 
„Það verður ekki horft fram hjá því að þeir einstaklingar sem eru í viðkvæmri stöðu vegna aðstæðna, eru í þess háttar búsetuúrræðum að smit þar gæti leitt til hópsmits.” 

„Ef það leysir einhvern vanda þá má færa forseta aftast," 
Brynjar Níelsson, þingforseti (D)

Anna Kolbrún Árnadóttir (Miðflokki) sagði umræðuna á þinginu nauðsynlega. „Ríkisstjórninni hefur mistekist að upplýsa þjóðina um hvenær verði búið að upplýsa þjóðina hvenær verði búið að bólusetja nógu marga til að hefja uppbyggingu. Algjör óreiða í skilaboðum ríkisstjórnarinnar og landsmenn engu nær um hvenær bóluefni berst. Hversu mikið og hvenær þessu lýkur. Það voru augljós mistök að treysta á ESB og hagsmunagæslu þeirra. Merkilegt að stjórnvöld hafi ekki hugsað varaleið,” sagði Anna Kolbrún. 

„Ósköp var þetta nú Miðflokkslegt,” sagði Svandís þá og bætti við í lok svars síns að flestir þingmenn hefðu sleppt því að gera bólusetningar og faraldurinn að pólitísku bitbeini, en þó greinilega ekki allir. 

Mynd með færslu
 Mynd: Alþingi - Alþingi (skjáskot)
Anna Kolbrún sagði það hafa verið mistök hjá stjórnvöldum að vera í samfloti með ESB varðandi kaup á bóluefni.

Vildi fá að vita hversu oft hann hafði staðið upp

Guðjón S. Brjánsson (Samfylkingu) spurði líka út í kaup á bóluefni en gagnrýndi stjórnvöld fyrir misvísandi upplýsingar og sagði almenning ekki vita í raun hvað væri í gangi. Hann þakkaði þó ráðherra fyrir umræðuna og benti á að hún hafði staðið upp og svarað spurningum þingmanna 24 sinnum. 

„Hefur háttvirtur þingmaður talið hvað forseti hefur staðið oft upp í þessari umræðu?” spurði Brynjar þá aftur sem þingforseti, en fékk ekki svar. „Þetta var nú bara smá þvæla,” sagði hann svo og hleypti Svandísi í pontu.   

Hún lauk ræðu sinni með hvatningarorðum. „Berum gæfu til þess að snúa bökum saman og hafa vald á faraldrinum,” sagði hún. „Það á hvetja okkur öll til dáða í að vera þátttakendur í viðspyrnunni og horfa fram á veginn. Stilla saman strengi og sýna þolgæði og úthald.” 

Mynd með færslu
 Mynd: Alþingi - Alþingi (skjáskot)
Brynjar beið í smá stund eftir svari frá Guðjóni, sem virtist ekki hafa talið hversu oft forseti hafði staðið upp í umræðunum.