Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mesta velta á fasteignamarkaði í mörg ár

26.01.2021 - 19:05
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Þinglýstum kaupsamningum um íbúðarhúsnæði fjölgaði um rúm 15% milli ára og veltan jókst um tæpan fjórðung. Þetta kemur fram í nýjum gögnum um fasteignamarkaðinn sem Þjóðskrá birti í dag.

 

Þrátt fyrir hið undarlega ástand sem fylgir kórónuveirufaraldrinum hefur verið líf og fjör á fasteignamarkaði. Veltan hefur ekki verið meiri síðan fyrir hrun. Alls skiptu um 14 þúsund fasteignir um hendur á árinu sem leið og var upphæð viðskiptanna um 667 milljarðar króna.

Meðalkaupverð íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu stendur nú í 56 milljónum króna og hefur ekki verið hærra síðan fyrir hrun.

Kjartan Hallgeirsson, formaður Félags fasteignasala segir að meiri sala á nýbyggingum skýri veltuaukninguna þar sem verð á nýbyggingum er hærra en á notuðu húsnæði. Þá hafi sala á sérbýlum verið meiri og lægri vextir hafi ýtt undir þá þróun. Margir hafi nýtt sér vaxtalækkanir til þess að endurfjármagna og skuldbreyta lánum og fleiri séu nú tilbúnir að skulda meira í fasteignum sínum meðan vextir eru lágir. Merkja megi að fólk á bjargræðisaldri hafi í auknum mæli keypt sína fyrstu íbúð eða stækkað við sig.
>>
 

 

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV