Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Lyfjastofnun tilkynnt um áttunda andlátið

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Lyfjastofnun barst í gær tilkynning um andlát aldraðrar manneskju sem hafði fengið síðari bólusetningu gegn kórónuveirunni með bóluefni Pfizer/Bio NTech. Átta andlát hafa nú verið tilkynnt til Lyfjastofnunar eftir bólusetningu með bóluefninu, allt aldrað fólk með undirliggjandi sjúkdóma. Engar vísbendingar eru um tengsl andlátanna við bóluefnið, að sögn Rúnu Hauksdóttur Hvannberg forstjóra Lyfjastofnunar.

Alls hafa Lyfjastofnun borist 193 tilkynningar um grun um mögulegar aukaverkanir í kjölfar bólusetningar með kórónuveirubóluefnum Pfizer/Bio NTech og Moderna. 132 vegna fyrrnefnda bóluefnisins og 61 vegna þess síðarnefnda. Tíu af þessum tilkynningum eru skráðar alvarlegar.

Rúna segir að tilkynningin um áttunda andlátið hafi borist Lyfjastofnun í gær. Um hafi verið að ræða aldraða manneskju með undirliggjandi sjúkdóm. Hún hafði fengið síðari bólusetningu með bóluefni Pfizer/BioNTech.

Rúna segir að sambærilegar aukaverkanir hafi komið fram í kjölfar bólusetninga í nágrannalöndunum. „Það hefur hvergi komið fram að það séu tengsl við bólusetninguna, heldur eru þau við aldurshópinn og undirliggjandi sjúkdóma,“ segir Rúna.

Eftir að Lyfjastofnun hafði borist fimm tilkynningar um andlát aldraðra með undirliggjandi sjúkdóma sem höfðu fengið bóluefni Pfizer voru tveir sérfræðilæknar fengnir til að rannsaka tengslin á milli bólusetninganna og andlátanna. Sú rannsókn leiddi í ljós að í fjórum tilfellum var ekki eða mjög ólíklegt að um orsakatengsl væri að ræða og í einu tilfelli var ekki hægt að útiloka þau, en leitt að því líkum að undirliggjandi sjúkdómur hefði verið áhrifaþáttur.

Rúna segir að andlátið, sem tilkynnt var um í gær, gefi ekki tilefni til frekari rannsókna. „Ég á ekki von á því. Það var ekkert í fyrri rannsókn sem benti til beins sambands,“ segir hún.