Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Lélegustu janúarútsölur í 19 ár auka verðbólgu

26.01.2021 - 17:50
Mynd með færslu
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Mikil verðbólga skýrist meðal annars af því að janúarútsölur hafa ekki verið lélegri í nítján ár. Hagfræðideild Landsbankans telur að verslanir hafi lækkað verð minna en í meðalári, vegna þess að Íslendingar séu nú háðari því að kaupa föt og skó hér á landi í faraldrinum. 

 

Verðbólga í janúar mælist 4,3 prósent, og hefur ekki verið meiri í sjö ár. Hún fer yfir varúðarmörk Seðlabankans, sem þarf að gera ríkisstjórninni grein fyrir ástæðum verðhækkananna. Fjármálaráðherra sagði í hádegisfréttum að ástæða væri til að hafa áhyggjur af verðbólgunni, því hún gæti stefnt vaxtastiginu í hættu. Allir þyrftu að taka þátt í að halda henni niðri, bæði fyrirtæki og hið opinbera. Seðlabankinn tekur næstu vaxtaákvörðun á miðvikudaginn eftir viku.

Hagfræðideild Landsbankans segir í Hagsjá sinni að verðlag hafi lækkað mun minna frá desember fram í janúar en almennt var búist við. Matur og drykkjarvörur hafi hækkað meira en fólk átti von á, en 68% vörutegunda hafi hækkað í verði.

Janúar er yfirleitt mesti útsölumánuður ársins, en í þetta sinn lækkuðu föt og skór aðeins um 6,5%. Síðustu fimm ár hefur fataverð lækkað að meðaltali um 11% milli mánaða. Lækkunin núna er minnsta lækkun milli mánaða í janúar frá árinu 2002.

Hagfræðideildin segir að útsöluáhrifin síðasta sumar hafi líka verið lítil. Útsölurnar séu að líkindum mun minni í sniðum vegna þess að Íslendingar kaupi meira af fötum og skóm í innlendum verslunum en áður en farsóttin skall á. 
 

 

sigridurhb's picture
Sigríður Hagalín Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV