Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fyrstu gjalddögum Ferðaábyrgðasjóðs frestað

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur ákveðið að fresta fyrstu gjalddögum Ferðaábyrgðasjóðs til 1. desember. Fyrsti gjalddagi átti að vera 1. mars næstkomandi.

Eðlilegt sé að fresta fyrstu afborgun vegna þess að enn eru umsvif íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja óveruleg af völdum kórónuveirufaraldursins. „Því er ljóst að innheimtuaðgerðir vegna gjalddaga 1. mars gætu leitt til gjaldþrota og myndi vinna gegn markmiðum sjóðsins,“ segir Þórdís.

Frestun fyrsta gjalddaga tryggi því hagsmuni ríkissjóðs og ferðaskrifstofanna. Sjóðnum er ætlað að veita ferðaskrifstofum lán til að endurgreiða ferðamönnum vegna ferða sem var aflýst eða afpantaðar á tímabilinu 12. mars til og með 30. september 2020.

Umfang lánveitinga sjóðsins nemur rétt rúmlega þremur milljörðum króna og lántakar skulu endurgreiða sjóðnum innan sex ára.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segist í samtali við fréttastofu fagna ákvörðuninni. „Það er að lengjast í öllu miðað við það sem upp var lagt með. Þetta er því skynsamleg ráðstöfun til að koma til móts við fyrirtækin eins og staðan er núna.“

Jóhannes segir að staðan í löndunum í kringum okkur sé þannig að ólíklegt sé að ferðamenn fari að hreyfa sig fyrr en vora tekur. Hann kveðst vonast til að hert verði á bólusetningum þegar á líður, enda hafi það mikil áhrif á hvernig sumarið þróast.

„Það lá alltaf fyrir að fyrsti ársfjórðungur yrði alveg dauður en tímalínur eru að færast nokkuð aftar en búist var við,“ segir Jóhannes. Hann telur raunhæft að gera ráð fyrir einhverjum ferðamönnum í júní eða jafnvel ekki fyrr en í júlí.

Jóhannes rifjar upp að ferðaþjónustuyrirtæki verði búin að vera tekjulaus í 14 mánuði þegar kemur fram á sumarið. Því segir hann magnað að fyrirtækin hafi haldist á floti en færri séu farin á hausinn en óttast var.