Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Ferðaþjónustan hóflega bjartsýn um ferðasumarið

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ákvörðun íslenskra stjórnvalda um að breyta tilhögun á landamærunum frá og með 1. maí næstkomandi er mjög mikilvæg fyrir ferðaþjónustuna og þá sem við hana starfa. Þetta segir Bjarnheiður Hallsdóttir formaður Samtaka ferðaþjónustunnar í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag, undir fyrirsögninni Dagur vonar.

 

Bjarnheiður segir í greininniskrefin sem tekin verða 1. maí séu varfærin.

Þau taki mið af litakóðunarkerfi Sóttvarnastofnunar Evrópu, þar sem ríki verða flokkuð græn, appelsínugul, rauð og grá eftir stöðu faraldursins. Þeir sem koma frá grænum eða appelsínugulum ríkjum geta þá framvísað neikvæðu Covid-prófi frá heimalandinu og þurfa aðeins að fara í eina skimun, og þeir sem framvísa vottorði um að hafa fengið Covid eða bólusetningu við sjúkdómnum verða undanþegnir sóttvarnaaðgerðum á landamærunum.

Ekkert gefið

Bjarnheiður vitnar í nýlegar spár Goldman Sachs og Deutsche Bank um að búið verði að bólusetja stóran hluta Vesturlandabúa í maí eða júní. Skýrsla Evrópska ferðamálaráðsins bendi til þess að bólusetningar séu þungamiðjan í ferðaáætlunum Evrópubúa, en að litlar breytingar verði á áfangastöðum frá því sem var áður en faraldurinn braust út. Íslendingar hafi gert sér vonir um að landið verði talið ákjósanlegur áfangastaður vegna fámennis og víðáttu, en skýrslan bendi til þess að flestir hyggi enn á borgar- og sólarlandaferðir. Góðu fréttirnar séu þó þær að 1-2 prósent svarenda nefni Ísland sem áhugaverðan áfangastað þegar þeir hefja ferðalög að nýju.

„Þessar tölur segja okkur hins vegar að það er ekkert gefið og alls óvíst að Ísland njóti einhvers konar sérstöðu þegar kemur að vali fólks á áfangastað að faraldri loknum. Þær segja okkur líka, að við megum hvergi slaka á og að sveigjanleiki, aðlögun að þörfum viðskiptavina í kjölfar heimsfaraldurs og stóraukin markaðssókn eru lykilatriði á næstu mánuðum," segir Bjarnheiður í Fréttablaðinu í dag.