Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Eyþór gagnrýnir drátt á framkvæmdum

Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun / RÚV
Eyþór Arnalds oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn og stjórnarmaður í Orkuveitu Reykjavíkur segir gott að Veitur hafi viðurkennt að mistök hafi valdið vatnstjóninu í Háskóla Íslands. Verst sé hins vegar að sjá aftur og aftur miklar tafir á framkvæmdum á vegum borgarinnar og fyrirtækja hennar. 

Veitur sögðu í yfirlýsingu í dag að rýnt verði í verklag og samskipti allra sem vinna við framkvæmdir á vegum Veitna. Framkvæmdastjórinn harmaði mistökin í sjónvarpsfréttum fyrr í kvöld. Fjórtán mánuðir eru síðan Veitur byrjuðu framkvæmdir við Suðurgötu þar sem sextíu ára gamla kaldavatnsleiðslan liggur. Stjórnarmönnum í Orkuveitunni var greint frá mistökunum á fundi í gær: 

„Það er bara gott að það er viðurkennt og ekki verið að fela það. En þetta er ekki í fyrsta sinn sem að svona verk dragast svona lengi,“ segir Eyþór Arnalds oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn og stjórnarmaður í Orkuveitu Reykjavíkur.

Hafið þið minnihlutinn þarna í stjórninni eitthvað gert athugasemdir eða munuð þið fylgja þessu máli eftir?

„Fyrst var náttúrlega að fá sannleikann upp á yfirborðið en svo er að breyta verklaginu til frambúðar. En það sem mér finnst kannski verst í þessu máli er það að þetta er að gerast aftur og aftur. Við erum að sjá að verk tefjast mjög lengi með tilheyrandi tjóni fyrir aðila bæði rekstraraðila á Hverfisgötunni og svo spyr maður sig af hverju þarf að loka Lækjargötunni árum saman vegna hótels sem verið er að byggja og fleira. Það eru þessar framkvæmdir sem að taka alltof langan tíma.“