Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ekki jafn bjartsýnir og Svandís vegna vanda AstraZeneca

epa08931898 A nurse prepares a dose of the Oxford/AstraZeneca Covid-19 vaccine at the NHS vaccine mass vaccination centre that has been set up in the grounds of Epsom Race Course, in Surrey, Britain 11 January 2021. The UK government has announced that mass vaccination centres will start operating from 11 January in London, Newcastle, Manchester, Birmingham, Bristol, Surrey and Stevenage.  EPA-EFE/DOMINIC LIPINSKI / POOL
 Mynd: EPA-EFE - PA POOL
Grunnt er á því góða milli Evrópusambandsins og bóluefnaframleiðandans AstraZeneca eftir að fyrirtækið tilkynnti á föstudag að það gæti ekki afhent jafn marga bóluefnaskammta og það hafði lofað. Utanríkisráðherra Lettlands segir sambandið vera að íhuga að draga fyrirtækið fyrir dóm. Norðmenn óttast að skortur á bóluefni frá AstraZeneca seinki bólusetningum um einn til tvo mánuði. Þeim hafði verið lofað tveimur milljónum skammta fyrir sumarið en það dregst saman um 90 prósent.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, sagði í umræðu á Alþingi í dag að enn væru allar líkur á því „að við munum ná að bólusetja þorra þjóðarinnar á fyrstu tveimur ársfjórðungum þessa árs sem hefur verið markmiðið frá upphafi.“ 

Framleiðsluvandi Pfizer og AstraZeneca gæti leitt til þess að skammtarnir yrðu mögulega færri en til stóð á næstu vikum en það yrði unnið upp. „Þetta er auðvitað ekki nákvæmlega eins og við myndum vilja hafa það.“

Úr 75 þúsund skömmtum í 13.800

Hefði allt verið eðlilegt hjá AstraZeneca hefði Ísland átt að fá um 75 þúsund skammta í febrúar, ef marka má fréttir norskra miðla, en þeir verða aðeins 13.800.  Norðmenn líkt og Íslendingar fylgja Evrópusambandinu að málum þegar kemur að kaupum á bóluefni og Ísland fær 6,8 prósent af því bóluefni sem Noregur fær. Er þar miðað við höfðatölu.

Norðmenn voru farnir að undirbúa fjöldabólusetningu með bóluefninu frá AstraZeneca enda höfðu þeir gert ráð fyrir 1,1 milljón skammta. Samkvæmt nýjustu tíðindum verða þeir aðeins 200 þúsund. Á vef NRK kemur fram að Norðmönnum hafi verið lofað tveimur milljónum skammta af bóluefni AstraZeneca fyrir sumarið sem hefði þýtt 136 þúsund skammtar fyrir Ísland.  Nú er ljóst að það dregst saman um 90 prósent og hætta sé á að um milljón Norðmanna þurfi að bíða fram á haust eftir bólusetningu. Haft er eftir Geir Bukholm að mögulega geti annað bóluefni bætt upp þennan skort en þar sé ekkert fast í hendi.

Samkvæmt upplýsingum frá Óskari Reykdalssyni, framkvæmdastjóra heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, var engin sérstakur viðbúnaður settur af stað hér á landi vegna þess möguleika að von væri á miklu bóluefni í febrúar. Slíkar áætlanir séu þegar fyrir hendi og gripið verði til þeirra ef mikið bóluefni kæmi.

Óttast að bólusetning tefjist um tvo mánuði

Fram kemur í norskum fjölmiðlum að yfirvöld hafi áhyggjur af því að  framleiðsluvandi AstraZeneca tefji bólusetningu þar um einn til tvo mánuði. Haft er eftir Preben Aavitsland, yfirlækni hjá norska landlæknisembættinu, á vef VG að þetta þýði að margir í áhættuhópum verði bólusettir í apríl og maí en ekki mars og febrúar eins og gert var ráð fyrir.  

Á vef NRK er haft eftir yfirlækninum að þetta klúður AstraZeneca hafi sett áætlanir norskra yfirvalda í uppnám. „ Við fengum því miður slæmar fréttir sem þýða að bólusetningu seinkar,“ hefur NRK eftir Bent Høie, heilbrigðisráðherra. Hann útilokar þó ekki þann möguleika að búið verði að bólusetja þorra Norðmanna fyrir sumarið. Á vef VG kemur fram að Evrópusambandið skoði nú að fá bóluefni annars staðar frá til að bæta upp skortinn.

Hóta að draga AstraZeneca fyrir dóm

Innan Evrópusambandsins ríkir einnig mikil reiði vegna framgöngu AstraZeneca. Utanríkisráðherra Lettlands lét hafa eftir sér að til skoðunar væri að draga fyrirtækið fyrir dóm vegna samningsbrota. „Evrópusambandið hefur varið háum fjárhæðum til að hægt sé að þróa fyrstu bóluefnin við COVID-19 í þágu alls heimsins. Og nú verða fyrirtækin að standa við sitt,“ sagði Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, þegar hún ávarpaði efnahagsráðstefnuna í Davos.  

Sambandið hefur þegar ákveðið að herða enn frekar eftirlit með útflutningi á því bóluefni sem framleitt er í Evrópu. Samkvæmt skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu frá heilbrigðisráðuneytinu hefur þetta engin áhrif á Ísland. Ráðuneytið fylgist með stöðu mála varðandi bóluefnasamninga og framgang þeirra.  „Framkvæmdastjórn gætir jafnt hagsmuna allra þjóða sem eiga aðild að samstarfinu,“ segir í svari ráðuneytisins.

Svíar deila við Pfizer vegna sjötta skammtsins

En það eru ekki bara vandræði hjá AstraZeneca. Því Pfizer þurfti að draga úr framleiðslu sinni vegna breytinga á framleiðsluferlinu.

Sænskir fjölmiðlar greindu svo frá því í morgun að þarlend yfirvöld stæðu í deilum við lyfjafyrirtækið vegna sjötta skammtsins. Þar kemur fram að Pfizer ætli að rukka fyrir þann skammt, óháð því hvort það takist að ná honum með þar til gerðum búnaði.  „Ef land nær aðeins fimm skömmtum úr hettuglasinu þá þarf það samt að borga jafn mikið og ef skammtarnir væru sex,“ er haft eftir Richard Bergström, sem á sæti í samninganefnd framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.  

Ekki séu öll lönd í þeirri aðstöðu að ná sjötta skammtinum.  Haft er eftir Anders Tegnell, sóttvarnalækni Svía, að Svíþjóð muni ekki greiða reikninga frá Pfizer fyrr en þessi deila hafi verið leyst.

Í svari við fyrirspurn fréttastofu segir heilbrigðisráðuneytið að það kannist við þessa umræðu úr erlendum fjölmiðlum en hafi ekki staðfestar upplýsingar. Ísland náði umræddum sjötta skammti úr hettuglösunum í síðustu sendingu og von er á 2.000 skömmtum frá Pfizer í þessari viku.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV