Boris Johnson: „Við gerðum allt sem við gátum“

Mynd: EPA-EFE / EPA
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, segist bera ábyrgð á öllu því sem ríkisstjórn hans hefur gert til að bregðast við kórónuveirufaraldrinum. „Við gerðum allt sem við gátum,“ sagði forsætisráðherrann á blaðamannafundi í dag þegar Bretland varð aðeins fimmta landið í heiminum þar sem meira en en hundrað þúsund hafa látist af völdum COVID-19. „Ég votta öllum þeim samúð mína sem misst hafa ástvin í farsóttinni. Ég er sannarlega miður mín.“

Þetta kemur fram á vef BBC.

Meira en 20 þúsund ný smit voru staðfest í Bretlandi síðasta sólarhringinn.  Vísbendingar eru um að smitum fari fækkandi þótt áfram hækki tala þeirra sem þurfa að leggjast inn á sjúkrahús eða deyja af völdum sýkingarinnar.  

Strangar reglur eru í gildi til að hefta útbreiðslu veirunnar. Íbúar Englands eiga að halda sig heima og mega aðeins fara út til að kaupa í matinn, stunda æfingar eða fara til vinnu ef þeir geta ekki unnið heima. Svipaðar reglur eru í gildi á Skotlandi, Wales og Norður-Írlandi.

Chris Whitty, landlæknir Bretlands, sagði daginn í dag mjög sorglegan. Það væri þó ljós í myrkrinu, sýkingum væri að fækka og að kúrfan varðandi sjúkrahúsinnlagnir væri að fletjast út þótt staðan væri enn mjög erfið.  Ekki myndu sjást miklar breytingar á fjölda andláta á næstunni. 

„Breska afbrigðið“ hefði öllu breytt því þrátt fyrir aðgerðir yfirvalda hefði smitstuðullinn ekki lækkað að neinu ráði.  

Bretar íhuga nú að skikka alla þá sem koma til landsins á farsóttar-hótel. Bæði til að reyna að stöðva útbreiðslu veirunnar en líka til að koma í veg fyrir að afbrigði sem kennd eru við Brasilíu og Suður-Afríku nái fótfestu.

Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Bretlands, sagði daginn í dag „nístandi“ og Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins, lýsti honum sem þjóðarharmleik. Bretar standa þó vel að vígi þegar kemur að bólusetningum en nú hafa nærri sjö milljónir fengið bóluefni. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV