Meira en 20 þúsund ný smit voru staðfest í Bretlandi síðasta sólarhringinn. Vísbendingar eru um að smitum fari fækkandi þótt áfram hækki tala þeirra sem þurfa að leggjast inn á sjúkrahús eða deyja af völdum sýkingarinnar.
Strangar reglur eru í gildi til að hefta útbreiðslu veirunnar. Íbúar Englands eiga að halda sig heima og mega aðeins fara út til að kaupa í matinn, stunda æfingar eða fara til vinnu ef þeir geta ekki unnið heima. Svipaðar reglur eru í gildi á Skotlandi, Wales og Norður-Írlandi.
Chris Whitty, landlæknir Bretlands, sagði daginn í dag mjög sorglegan. Það væri þó ljós í myrkrinu, sýkingum væri að fækka og að kúrfan varðandi sjúkrahúsinnlagnir væri að fletjast út þótt staðan væri enn mjög erfið. Ekki myndu sjást miklar breytingar á fjölda andláta á næstunni.
„Breska afbrigðið“ hefði öllu breytt því þrátt fyrir aðgerðir yfirvalda hefði smitstuðullinn ekki lækkað að neinu ráði.
Bretar íhuga nú að skikka alla þá sem koma til landsins á farsóttar-hótel. Bæði til að reyna að stöðva útbreiðslu veirunnar en líka til að koma í veg fyrir að afbrigði sem kennd eru við Brasilíu og Suður-Afríku nái fótfestu.
Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Bretlands, sagði daginn í dag „nístandi“ og Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins, lýsti honum sem þjóðarharmleik. Bretar standa þó vel að vígi þegar kemur að bólusetningum en nú hafa nærri sjö milljónir fengið bóluefni.