
AstraZeneca skellir skuldinni á Evrópusambandið
„Það voru samskonar vandamál í framleiðslunni fyrir Bretland og við erum þremur mánuðum á eftir að laga þau fyrir Evrópumarkað,“ hefur þýska blaðið Die Welt eftir Pascal Soriot, forstjóra AstraZeneca.
Mánuður síðan Bretar byrjuðu að nota bóluefnið
Bretar sömdu við AstraZeneca í júní en samkomulagið við Evrópusambandið var undirritað þremur mánuðum seinna. Og þegar Lyfjastofnun Evrópu afgreiðir umsókn fyrirtækisins um skilyrt markaðsleyfi á föstudag verða Bretar búnir að nota það í mánuð.
AstraZeneca tilkynnti Evrópusambandinu á föstudag að það gæti ekki staðið við afhendingaráætlun sína á fyrsta ársfjórðungi. Sú ákvörðun hleypti illu blóði í ráðamenn sem hafa jafnvel hótað að draga fyrirtækið fyrir dómstóla.
Óttast er að skammtarnir frá AstraZeneca verði 60 prósent færri en gert var ráð fyrir. Á vef Guardian kemur fram að Soriot hafi fullvissað bresk stjórnvöld um að Evrópusambandið gæti ekki troðið sér fram fyrir í röðina til að bæta sér upp skort á skömmtum. Bretar myndu fá sitt og ESB yrði að bíða.
14. júlí hjá Bretum - 21. október hjá ESB
Fyrirtækið Airfinity, sem er staðsett í Bretlandi, hefur reiknað út að Bretar verði búnir að bólusetja 75 prósent þann 14. júlí. Miðað við tafir og birgðastöðu verði sama hlutfalli ekki náð hjá ESB fyrr en 21. október.
Til að bæta gráu ofan á svart er hugsanlegt að bóluefnið verði ekki gefið íbúum eldri en 65 ára.
Emer Cooke, forstjóri Lyfjastofnunar Evrópu, sagði á fundi með heilbrigðisnefnd Evrópuþingsins að stofnunin væri að fara yfir öll gögn um hvernig bóluefnið veitti vörn fyrir mismunandi aldurshópa. Til greina kæmi að mæla gegn því að bóluefnið yrði notað hjá fólki eldra en 65 ára
Soriot hefur hafnað því að bóluefnið veiti ekki næga vörn fyrir eldra fólk. Hann segist í viðtali við ítalska blaðið la Repubblika hafa á því skilning ef einhver lönd noti bóluefnið frekar til að bólusetja yngra fólk en þá eingöngu í varúðarskynni. „Það er ekki til nóg bóluefni fyrir alla. Ef eitt bóluefni er notað fyrir eldra fólk og annað fyrir yngra, hvert er þá vandamálið?“
„Rússnesk upplýsingaóreiða“ hjá þýskum fjölmiðlum
AstraZeneca hafnaði fréttum sem birtust í þýskum götublöðum í gærkvöld um að bóluefnið veitti aðeins 8 prósent vörn hjá fólki eldra en 65 ára. Þýska heilbrigðisráðuneytið var fljótt að bregðast við þessum fréttum og telur að blöðin hafi ruglað saman tölum yfir hlutfall eftir aldri þeirra sem tóku þátt í tilraun AstraZeneca og svo þeirri vörn sem bóluefninu er ætlað að veita.
Málið varð auðvitað pólitískt á einhverjum tímapunkti og á það bent að AstraZeneca væri breskt/sænskt fyrirtæki og bóluefnið þróað í samstarfi við Oxford-háskóla. Vefsíða Politico hafði eftir breskum embættismönnum að tímasetning fréttanna hjá þýsku blöðunum væru varla tilviljun, þær hefðu beinst að bresku fyrirtæki og deilu þess við Evrópusambandið. Þýsku blöðin væru sek um „upplýsingaóreiðu að hætti Rússa“.
Miðað við frá Noregi hefði Ísland átt að fá nærri 75 þúsund skammta frá AstraZeneca í febrúar en þeir verða aðeins 13.800. Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, sagði á Alþingi í dag enn væru allar líkur á því að Íslandi myndi takast að bólusetja þorra þjóðarinnar á fyrstu tveimur ársfjórðungum þessa árs.
Framleiðsluvandi Pfizer og AstraZeneca gæti leitt til þess að skammtarnir yrðu mögulega færri en til stóð á næstum vikum. „Þetta er auðvitað ekki nákvæmlega eins og við myndum vilja hafa það.“