Ásgeir: Þurfum ferðamenn til að byggja upp vegakerfið

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Rúnar Snær Reynisson - Ferðamenn á Seyðisfirði
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri kveðst hafa fulla trú á því að ferðaþjónustan komi aftur af fullum krafti. Áfallið vegna kórónuveirufaraldursins sé tímabundinn vandi. Þetta kom fram á málstofu Ferðaklasans, KPMG og Samtaka ferðaþjónustunnar um viðspyrnu ferðaþjónustunnar í morgun.

Ásgeir kveðst telja að ferðaþjónustan sé mögulega á svipuðum stað og sjávarútvegurinn var þegar þorskstofninn hrundi árið 1988. Áfallið gaf tilefni til að hagræða í geiranum og blása til stórsóknar.

Ásgeir segir mikilvægt að fá erlenda ferðamenn að nýju til landsins.

„Við erum mjög smá þjóð í stóru landi og það hefur verið okkur gríðarlega dýrt að byggja upp inviði, vegi og þess háttar," segir Ásgeir. „Að einhverju leyti eru erlendir ferðamenn forsenda fyrir því að við getum byggt upp samgöngukerfi í landinu." 

Hann viðurkennir að landsmenn hafi ekki verið nógu röggsamir að byggja upp vegakerfið í samræmi við fjölgun notenda. Þó sé mikilvægt að muna að ferðamenn borgi til kerfisins: „Við erum að innheimta fyrir samgöngumannvirki með óbeinum sköttum."

Sævar Kristinsson ráðgjafi hjá KPMG kynnti á málstofunni niðurstöður könnunnar á meðal ferðaþjónustufyrirtækja, þar sem fram kom að aðeins eitt prósent þeirra býst við að þurfa að hætta starfsemi á þessu ári. Sjö prósent eru í sameiningarferli, en níutíu og tvö prósent ætla að halda sínu striki á þessu ári.

sigridurhb's picture
Sigríður Hagalín Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV