Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Allir undirbúa framboð - mislangt komnir

Mynd: Birgir Þór Harðarson / RÚV
Þessa dagana hugsa sinn gang þeir sem sækjast eftir því að komast á framboðslista þegar kosið verður til Alþingis í haust. Hjá ýmsum flokkum er verið að kalla eftir þátttakendum í prófkjör eða forval og tilnefningum til uppstillingarnefnda. Menn svara því kalli með tilkynningum sem detta inn hjá fjölmiðlum og félögunum. Annars staðar eru menn lítt komnir af stað, horfa til vorsins og hvort og hvenær kófinu linnir. Það er líka svo að mismunandi háttur getur verið á eftir kjördæmum.

Framsóknarmenn í Norðvestur- og Norðausturkjördæmi velja sér frambjóðendur í efstu sæti í póstkosningu, Í Suður- og Suðvesturkjördæmum verða lokuð prófkjör um fimm sæti en í Reykjavík verður stillt upp listum og þeir afgreiddir á aukakjördæmaþingi.

Hjá Vinstri hreyfingunni - grænu framboði verður forval í öllum kjördæmum. Fyrst í Norðausturkjördæmi um miðjan næsta mánuð, þar sem tólf sækjast eftir efstu fimm sætum. Listar eiga að liggja fyrir í vor. Niðurstaða úr forvali er bindandi en þó er þar bundið í flokkslög að ekki megi halla á konur og listum því breytt ef svo fer. 

Samfylkingin í Reykjavík gerði könnun hjá félögum sínum fyrir jól og hafði áður óskað eftir tilnefningum, þar var valin það sem kölluð hefur verið sænska leiðin. Listasmíðin sjálf er í höndum uppstillingarnefndar og var stefnt að því að listinn yrði til í byrjun árs en hann á leggja fram til samþykktar eigi síðar en 20. febrúar. NIðurstaða könnunarinnar er ekki bindandi en nokkur átök hafa verið hjá Samfylkingarmönnum í Reykjavík eftir að fréttir bárust af því að  Ágúst Ólafur Ágústsson, sitjandi þingmaður hefði ekki verið meðal fimm efstu manna og hann ætlar ekki að taka sæti á lista í haust. Í Suðvesturkjördæmi hefur uppstillingarnefnd kallað eftir tilnefningum um frambjóðendur og nefndin á svo að skila af sér lista til stjórnar kjördæmisráðs eigi síðar en 11. mars. Í öðrum kjördæmum er það enn að skýrast hvernig staðið verður að vali frambjóðenda. 

Miðflokksfólk hefur ekki tekið ákvörðun og þar á eftir að halda fundi í öllum kjördæmum. Búist er við að mál verði komin á hreint þar í lok mars. Í síðustu kosningum var stillt upp í öllum kjördæmum. 

Hjá Pírötum er nú opið fyrir framboð í öllum kjördæmum og hægt að skrá sig til 3. mars þegar kosningin sjálf hefst og stendur til 13. mars og þá verða úrslit kynnt. Verði þátttaka dræm og færri en hundrað taka þátt þá verður hægt að framlengja. 

Í Viðreisn hafa ekki verið teknar ákvarðanir um hvaða háttur verður hafður á en allt sagt þar á fleygiferð og heildarsýn verði komin um mánaðamót. Hvert landshlutaráð tekur afstöðu til þess hvernig valið er á lista. Þar var stillt upp í öllum kjördæmum síðast. 

Rík hefð er fyrir prófkjörum í Sjálfstæðisflokknum, en þar hefur ekkert verið afráðið. Hvert kjördæmisráð ræður því hvernig valið er og líka hvenær. Þar horfa menn til vors, jafnvel verði ekki gengið frá listum fyrr en snemmsumars. 

Hjá Flokki fólksins er ekki búið að taka aðrar ákvarðanir en að stefnt er að framboði í öllum kjördæmum og langt sé til haustsins.

Þeir flokkar sem nú eiga menn á þingi eru þannig afar misjafnlega langt komnir með að velja fólk á lista. Í skoðanakönnunum undanfarið hefur Sósíalistaflokkur Íslands notið svo mikils fylgis að hann kæmi manni eða mönnum á þing. Þar á bæ verða kjörnefndir líklega komnar með lista í lok mars, byrjun apríl. 

Auk ofangreindra bauð Alþýðufylkingin fram lista í þriðja sinn þegar kosið var fyrir fjórum árum en kom ekki manni að. Þar var í október 2018 ákveðið á landsfundi að ekki skyldi stefnt að framboði til Alþingis eða sveitarstjórna. Björt framtíð sem bauð fram 2017 féll af þingi. 

Í kosningum frá hruni hefur orðið mikil endurnýjun á þingi en Ólafur Þ. Harðarson,  prófessor í stjórnmálafræði, á ekki endilega von á því að svo verði í haust. Það yrði þá helst ef stórfelldar breytingar verða á fylgi flokka. Síðustu árin hafi uppstillingar rutt sér til rúms í stað prófkjöra, allt sé þetta í hendi kjördæmanna. Allar líkur séu á því að sjö til níu flokkar eigi menn á þingi eftir kosningarnar í september. Þessi fjölgun flokkanna sé í raun meginbreytingin sem orðið hefur frá því eftir hrun. Svipuð þróun hafi orðið annars staðar á Norðurlöndum. Þingstörfin fram undan hljóti að markast af því að á framboðsári vilji menn marka sér sérstöðu og svipað sé uppi á teningnum í ríkisstjórnarsamstarfinu. 

 

 

Anna Kristín Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV