Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

„Þú átt ekkert heimaland, það er horfið“  

25.01.2021 - 20:00
Mynd: EPA-EFE / EPA
10 ár eru í dag frá uppreisn almennings í Egyptalandi sem varð til þess að forsetanum var steypt af stóli. Vonast var eftir lýðræðisumbótum og betri tíð en nú áratug síðar virðist staðan enn verri en áður. Enginn veit hversu margir hafa flúið landið síðustu ár vegna pólitískra ofsókna.

Í janúar 2011 flykktust milljónir Egypta út á götur til mótmæla. Í höfuðborginni Kairó var Tahrir-torg eða frelsistorgið miðpunkturinn. Mótmælendur komu sér fyrir á torginu og létu ekki undan fyrr en hinn þaulsætni Hosni Mubarak fór frá völdum eftir sína þriggja áratuga valdatíð. Um tíma ríkti mikil bjartsýni, fólk trúði því að nú yrðu raunverulegar breytingar. 

Blóðugt valdarán hersins

Egyptar gengu til sinna fyrstu og einu raunverulega lýðræðislegu forseta kosninga 2012. Mohammed Morsi, frambjóðandi Bræðralags múslima, var kjörinn forseti en honum var svo steypt af stóli rétt rúmu ári síðar í kjölfar mótmæla. Í þetta sinn var það herinn sem kom forsetanum frá, það var ekki til þess að skapa frið - mótmælendur vildu kosningar, ekki valdarán hersins og héldu áfram að mótmæla. Þá gerðist það sem kallað er Rabaa-fjöldamorðið. Herinn réðst að stuðningsmönnum Morsis sem voru við mótmæli og myrti minnst þúsund manns um hábjartan dag. Hæstráðandi í hernum var Abdel Fattah al-Sisi, núverandi forseti Egyptalands. 

Mynd með færslu
 Mynd: Kolbrún Þóra Löve - RÚV
Egyptar hafa haft þrjá forseta síðasta áratuginn.

Valdatíð al-Sisi hófst í janúar 2014 og með henni það sem sumir segja versta tímabil í nútímasögu Egyptalands hvað varðar mannréttindi, frelsi og lýðræði. Ofsóknir og ofbeldi gegn þeim sem teljast ógn við stjórnvöld hafa aukist, fjöldi blaðamanna í fangelsi og aftökur hafa náð áður óþekktum hæðum. 

Mörg þeirra sem tóku virkan þátt í uppreisninni fyrir áratug eru í útlegð. Einn þeirra er Tqadum al-Khatib. Hann var staddur í Berlín við akademískar rannsóknir þegar hann var kallaður á teppið í sendiráði Egyptalands og áttaði sig á því að hann ætti ekki afturkvæmt. „Hann krafðist þess að ég læti vegabréfið mitt af hendi og ég neitaði því. Eftir það sendi hann egypsku leyniþjónustunni skýrslu um mig og ég var rekinn frá háskólanum sem ég starfaði við í Egyptalandi,“ segir hann. 

Enginn veit fyrir víst hversu margir hafa flúið pólitískar ofsóknir í Egyptalandi en gögn frá Alþjóðabankanum sýna að sífellt fleiri yfirgefa landið, nærri þrjár og hálf milljón á árinu 2017 einu. Asma Khatib er blaðamaður sem flúði land þegar yfirvöld hófu að handtaka kollega hennar. Árið 2015 var hún svo dæmd til dauða. „Tilfinningin helltist yfir mig; þú átt ekkert heimaland lengur. Ég hugsa þetta aftur og aftur; þú átt ekkert heimaland, það er horfið,“ segir Asma.   

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV