„Þjóðkirkjan eitthvað sem ég átti enga samleið með"

Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV

„Þjóðkirkjan eitthvað sem ég átti enga samleið með"

25.01.2021 - 16:43

Höfundar

Sindri Geir Óskarsson, sóknarprestur í Glerárkirkju, hefur vakið talsverða athygli á samfélagsmiðlinum Tik Tok að undanförnu. Þar svarar næstyngsti sóknarprestur landsins ýmsum spurningum er varða málefni kirkjunnar.

Sindri Geir er Akureyringur, hann er reyndar fæddur í Ósló, en flutti til Íslands tveggja vikna gamall og ólst upp í þorpinu. Hann er því í raun mættur aftur heim með því að vera sóknarprestur í Glerárkirkju. Hann var gestur í Sunnudagssögum á Rás 2 þar sem hann ræddi við Gígju Hólmgeirsdóttur um vinsældirnar á Tik Tok og ferðalagið að prestsembættinu. 

Sindri Geir fékk snemma áhuga á stjórnmálum og samfélagsmálum og segist hafa fengið gott veganesti frá foreldrum sínum þegar kemur að samfélagsmálum. „Þau voru að skipta sér af samfélaginu og vildu láta gott af sér leiða. Maður fékk það með sér inn í lífið. Maður á ekki bara að hugsa um sjálfan sig heldur líka að einbeita sér að samfélaginu og hvað maður getur gert fyrir aðra,” segir Sindri Geir.

Hann var virkur í kristilegu barnastarfi og æskulýðsstarfi Hvítasunnukirkjunnar þegar hann var yngri en hugurinn stefndi þó ekki á prestastarfið. „Ég sagði lengi að mig langaði að verða læknir. Einhver hugmynd sem ég hafði í kollinum að það væri eitthvað sem mig langaði að gera,” segir Sindri Geir um draumastarfið í æsku. „Í menntaskóla brotnaði þessi læknadraumur þegar ég féll í stærðfræði 303. Þurfti að skipta um braut, var á náttúrufræðibraut og fór á félagsfræðibraut. Ég fann mig þar,” segir Sindri Geir um menntaskólaárin sem hann lýstir sem miklum mótunartíma. 

Á þessum tíma hellti Sindri Geir sér einnig í stjórnmálin og var meðal annars formaður Ungra vinstri grænna á Akureyri og segist hann í raun hafa jarðað það félag enda fannst enginn til að taka við starfinu af honum. Hann segir vinahópinn hafa verið nokkuð róttækan og minnist til að mynda mótmæla á Ráðhústorginu á Akureyri þar sem málverk af Davíð Oddsyni voru brennd. Hann hefur þó lokið öllum afskiptum af stjórnmálum í dag og segir það ekki fara saman með starfinu. 

Átti enga samleið með kirkjunni

Þegar komið var að lokaárinu í menntaskóla upplifði hann smá krísu um hvað tæki við. Að lokum ákvað hann að skrá sig í guðfræði, aðallega vegna þess að hann hafði áhuga á fornmálunum og heimspeki. Þrátt fyrir að hafa skráð sig í guðfræði eftir menntaskóla segist Sindri Geir ekki hafa verið neitt sérstaklega trúaður á þessum árum. „Þegar ég var í menntaskóla bauð ég fólki að skrá sig úr Þjóðkirkjunni af því ég hafði eiginlega misst trúna á kirkjunni. Hafði ekki misst mína trú að fullu leyti þarna. En ég fann að fyrir mér var Þjóðkirkjan eitthvað sem ég átti enga samleið með,” segir Sindri Geir. 

Í guðfræðinni bjóst Sindri Geir við að hitta fyrir mikið af fordómafullu fólki með íhaldssamar skoðanir. Hann var átakasækinn á þessum árum og var spenntur að rökræða af krafti við samnemendur sína og kennara. „Það var smá sjokk að fara í guðfræðideildina og sjá að þetta er mjög framsækið nám. Allir prófessoranir og kennararnir sem maður talaði við voru á allt annarri línu en ég hafði búist við,” segir Sindri Geir. 

Trúin kom ekki aftur til hans um leið og hann byrjaði að mæta í tíma. Hann segir þetta hafa farið í smá hring. Þegar hann byrjaði í trúarheimspeki á fyrsta ári varð lesefnið til þess að hann missti alla trú. „Við vorum að lesa allskonar klassísk heimspekirit um trúarbrögð og á einhverjum tímapunkti fór ég til kennarans og spurði: „Hvernig getur þú verið að lesa þessa hluti en samt trúað á guð?” Öll þessi gagnrýni sem ég hafði verið að lesa, hún svipti fótunum undan þeirri trú sem ég átti ennþá. Við tók svolítil glíma,” segir Sindri Geir sem spurði sig hvort hann ætti að halda áfram í náminu þrátt fyrir að hann væri ekki trúaður. Hann hafði enn þá áhuga á náminu og ákvað því að halda áfram.

Þarna hafði hann enn þá gaman af námskeiðunum og áhuga á náminu og hann ákvað því að halda áfram í guðfræði. Á þriðja ári aðstoðaði hann konuna sína við rekstur á verslun í Vaglaskógi. Um mánaðamótin maí og júní var skógurinn grár og brúnn eftir veturinn. Á meðan Sindri Geir last bækur um guðfræði og gagnrýni á trúarbrögð fór hann að taka eftir því að þessi dauði skógur var orðinn grænn og lifandi. „Það helltist yfir mig þessi tilfinning að það væri einhver æðri máttur sem stæði að baki þessu öllu. Þessi lífskraftur sem við sjáum alls staðar í kringum okkur, að það er eitthvað meira sem er þarna að baki. Ég fann að þetta opnaði ákveðin glugga hjá mér. Ég var ekki endilega mjög kristinn, en ég trúði samt að það væri eitthvað meira í heiminum. Ég hugsaði að ég ætlaði að gefa þessu námi tækifæri,” segir Sindri Geir.

Eftir að hafa lokið BA-náminu ákváðu þau hjónin að flytja aftur til Akureyrar þar sem þeim hafi ekki liðið alltof vel í Reykjavík. Hann ákvað að klára meistaranámið í fjarnámi. „En þetta er gömul deild og þau tóku ekkert vel í að setja upp fjarfundabúnað. Það var einn prófessor sem leyfði mér að sitja tíma á Skype. Svo endaði þetta það vel að ég var að vinna á barnum á Icelandair hótelinu og gat notað starfsmannakjör til að fá ódýr flug suður. Þannig að ég var að fljúga suður mjög reglulega í tíma og vinna svo á barnum um kvöldin,” segir Sindri Geir.

Lærði norsku af Harry Potter

Stanslaus ferðalög á milli Reykjavíkur og Akureyrar tóku þó á og þetta gekk allt saman hálf brösulega. Sindri Geir ákvað því að taka eina önn í skiptinámi í Ósló á meðan að konan hans myndi vera eftir á Akureyri. Þau áttu þá eitt barn en þegar Sindri Geir var nýkominn til Noregs komust þau að því að annað barn var væntanlegt. Hann flutti því aftur heim til Íslands eftir aðeins mánuð í Noregi. Stuttu eftir að Sindri Geir fór aftur til Íslands fékk hann símtal frá Sigríði Guðmarsdóttur, en hún hafði verið einn af kennurum hans í guðfræðinni. Sigríður var þá orðinn prófastur í Noregi og var að leita að afleysingarpresti í hálft ár og það var ekki gerð krafa um guðfræðinám. Sindri Geir og fjölskylda tóku því ákvörðun um að flytja til Noregs með tvö lítil börn án þess að kona norsku. „Ég fór alveg magnaða leið til að negla norskuna, ég hlustaði á allar Harry Potter hljóðbækurnar á norsku. Maður kann þetta utan að þannig að ég lærði norsku í gegnum Harry Potter,” segir Sindri Geir. Í Noregi náði hann að klára það sem hann átti eftir af náminu samhliða vinnu og konan hans kláraði meistaranám sitt í fjarnámi. „Þegar ég horfi til baka sér maður alveg að þetta var álagstími. Sérstaklega þegar ég var búinn með ritgerðina, þá allt í einu fann maður spennufall.

Eftir hálft ár í Noregi flutti fjölskyldan aftur heim og nú tók atvinnuleit við. Á þeim tíma var lítið um auglýstar stöður innan kirkjunnar. Sindri Geir sótti um þær stöður sem losnuðu en það takmarkaði möguleikana að þau voru staðráðin í að vera á Norðurlandi. „Ég sótti um allt sem að losnaði í Eyjafirði,” segir Sindri Geir. Á meðan hann beið eftir starfi hjá kirkjunni vann hann á barnum á Icelandair hótelinu og fór svo að kenna í Glerárskóla. 

Stuttu síðar fór Sindri Geir að vinna hjá Vinnumálastofnun og fékk þá símtal þar sem honum bauðst að leysa af sjúkrahúsprestinn á Akureyri. „Ég var mjög spenntur fyrir þessu. Það hafði blundað í mér ákveðin löngun til að flytja út aftur og læra sjúkrahúsprestinn,” segir Sindri Geir. Mjög strangar kröfur eru gerðar til sjúkrahúspresta og var Sindri Geir á mjög stórri undanþágu á meðan hann vann á sjúkrahúsinu. „En ég fann það þegar ég var búinn að vera þarna í einn og hálfan mánuð, að vera þarna hvern dag andspænis dauðanum, það væri ekki það sem ég myndi vilja helga mig akkúrat núna,” segir Sindri Geir.

Sindri Geir hélt áfram að vinna hjá Vinnumálastofnun og var mjög ánægður þar. Í rauninni svo ánægður að hann var eiginlega búinn að gefa drauminn um að starfa sem prestur upp á bátinn. Þegar hann sá starf sóknarprests í Glerárkirkju auglýst var hann á báðum áttum hvort hann ætti að sækja um. Hann endaði með að senda inn umsókn 10 mínútum áður en fresturinn rann út.

Hann var svo að keyra í gegnum Vaðlaheiðargöng þegar Agnes biskup hringdi. „Ég þekkti númerið hennar þannig að ég stoppaði og tók símann, bjóst við að hún væri að segja að ég hefði ekki verið valinn. Ég þurfti að biðja hana um að endurtaka þetta þrisvar. Ég var 100% viss um að ég myndi ekki fá þetta,” segir Sindri Geir. 

Sló í gegn á Tik Tok

Í fyrstu COVID-19 bylgjunni á Íslandi vakti Sindri Geir athygli á Tik Tok reikningi sínum. Hann segir að vinsældirnar þar hafi í raun verið algjör tilviljun. Hann byrjaði að fíflast á samfélagsmiðlinum með börnunum sínum og fannst skemmtilegt að skoða myndbönd og herma eftir þeim. „Svo gerðist það eiginlega óvart að ég fór að fá spurningar tengda trú og byrjaði að svara þeim í myndböndum,” segir Sindri Geir. Hann segir að þetta hafi virkilega farið af stað eftir að hann svaraði spurningu um sína eigin afstöðu og afstöðu kirkjunnar í garð þungunarrofs. Hann hafi þá fundið fyrir því að fólk væri með ýmsar spurningar um trúmál og afstöðu kirkjunnar en engan vettvang til að spyrja. 

Hann segir mismikin tíma fara í hvert myndband. Allt frá tveimur mínútum og upp í 20 mínútur. „Þegar það er mikið að gera hjá mér í vinnunni þá læt ég þetta alveg vera. Þetta er orðið svona, þegar ég á létta viku, þegar það er ekki útför eða eitthvað stórt krefjandi verkefni þá hef ég alveg leyft mér að setja 3-4 vinnustundir í þetta. Þetta tengist vinnunni minni, ég er að nota þetta í vinnunni til þess að svara spurningum, til þess að sýna fólki að kirkjan er ekki bara leiðinlegasti staður í heimi eins og maður hefur heyrt frá fermingarbörnum. Mér finnst gaman að fólk hugsi að það séu prestar sem það getur tengt við. Ég sé það að kirkjan þarf að hafa voðallega fjölbreytta presta,” segir Sindri Geir. 

Tengdar fréttir

Þúsaldarprestur byrjaði óvart að boða trúna á TikTok

Trúarbrögð

Þjóðkirkjan þarf að þróast til að lifa af