Fyrsta samfélagssmit sem greinst hefur á Nýja Sjálandi í meira en tvo mánuði er afbrigði sem kennt er við Suður-Afríku. Chris Hipkins, heilbrigðisráðherra landsins, greindi frá þessu í morgun.
Kona á sextugsaldri greindist þar með kórónuveiruna í fyrradag, tíu dögum eftir að hafa lokið hálfs mánaðar sóttkví eftir komuna til landsins frá Evrópu. Talið er að hún hafi smitast af smitast af annarri manneskju í sóttkvínni, tveimur dögum áður en hún sjálf losnaði þaðan.
Stjórnvöld í Ástralíu hafa lýst yfir áhyggjum af málinu og hafa tímabundið skyldað alla þá sem koma frá Nýja-Sjálandi að fara í hálfs mánaðar sóttkví, en slakað hafði verið á reglum um ferðalög milli landanna vegna fárra smita.