Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ná sögulegu samkomulagi um skaðabætur fyrir minkabændur

25.01.2021 - 22:47
epa08732607 Danish police use force to enter a minkfarm in Gjoel, Denmark, 10 October 2020. Around 100.000 mink are to be put down at various farms in Denmark due to contamination with the coronavirus covid-19. Farmer Thorbjoern Jepsen refused to let the police onto his property and they therefore cut the lock and forced their way in.  EPA-EFE/MADS CLAUS RASMUSSEN  DENMARK OUT
Lögregla að störfum á minkabúi í Gjoel á dögunum.  Mynd: epa
„Sögulegt samkomulag“ náðist á danska þinginu í kvöld um að greiða dönskum minkabændum skaðabætur. Þeim var gert að loka og lóga öllum dýrum í haust þegar óttast var að nýtt afbrigði, sem smitaðist frá minkum í menn, væri ónæmt fyrir bóluefnum. Síðar kom í ljós að danska ríkisstjórnin hafði enga lagaheimild til að fyrirskipa minkabændum að aflífa dýrin.

Skaðabæturnar geta numið 18,8 milljörðum danskra króna eða sem nemur 408 milljörðum íslenskra króna.

Danska ríkið þarf  að fá samþykki frá Evrópusambandinu en Rasmus Prehn, matvælaráðherra landsins, segist ekki óttast að ESB standi í vegi fyrir því. „Við höfum átt í góðu samtali við ESB um þetta mál,“ hefur DR eftir Prehn.

Á vef DR kemur fram að minkabændum standi einnig til boða styrkur vilji þeir hefja loðdýrarækt að nýju.  Hann nemur 60 milljónum danskra króna eða 1,3 milljörðum íslenskra króna. Minkarækt er bönnuð í Danmöku til loka þess árs.

Minkamálið reyndist dönsku ríkisstjórninni erfitt. Bresk stjórnvöld ákváðu að loka á ferðalög til og frá landinu af ótta við stökkbreytta afbrigðið. Hér á landi var gripið til þess að skima alla minka fyrir veirunni. 

Skömmu eftir að yfirvöld skipuðu minkabændum af lóga öllum dýrum kom í ljós að þau höfðu enga lagaheimild til þess.  Mogens Jensen, landbúnaðarráðherra, sagði síðar af sér vegna málsins.

Talið er að á milli 15 og 18 milljónir minka hafi verið í búum í Danmörku. Minkarækt var sérstaklega mikilvæg á Norður-Jótlandi þar sem flest búin voru.