Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Inspector Spactime - Inspector Spacetime

Mynd: Inspector Spacetime / Inspector Spacetime

Inspector Spactime - Inspector Spacetime

25.01.2021 - 14:55

Höfundar

Hljómsveitin Inspector Spacetime gaf út sína fyrstu plötu, Inspector spacetime, í byrjun janúar. Sveitin er skipuð af þeim Agli Gauta Sigurjónsyni, Vöku Agnarsdóttur og Elíasi Geir Óskarssyni og var stofnuð á vordögum, nánar tiltekið í fyrsta samkomubanninu.

Þegar fjarnám tók við hjá unga fólkinu og lítið var um að vera í samfélaginu fannst þeim liggja beint við að hanga uppi í stúdíói, fikta sig áfram og búa til stemningu í samkomubanni. Lögin urðu flest öll til á nokkrum vikum en eftir óheppilegt gagnatap glötuðust öll lögin, þannig að árið hefur farið í að endurskapa og betrumbæta verk sveitarinnar.

Sá eini í bandinu sem hafði einhverja smá reynslu af því að vinna við tónlist var Elías Geir, sem pródúserar öll lög sveitarinnar. Hann hafði samið lög fyrir myndbandanefnd MH, en annars er Inspector Spacetime frumraun hljómsveitarinnar í tónlistarsköpun. Inspector Spacetime spilar skandinavískt rafpopp en innblásturinn kemur úr ýmsum áttum. Sem dæmi má nefna breska og franska danstónlist, hina spennandi hyperpopp-hreyfingu, diskó og annað skandipopp.

Sveitin gaf út sitt fyrsta lag, Hvað sem er, síðastliðið sumar sem er hressandi danslag og síðar kom krúttlega popplagið Teppavirki. Síðan þá hefur margt á daga Inspector Spacetime drifið. Samkomubannið setti vissulega strik í áætlanir um tónleikahald á árinu og var stefnan því sett á að leggja lokahönd á fyrstu plötu sveitarinnar og hún kláruð. Útgáfutónleikar eru þó á dagskrá um leið og hægt er að mæta á klúbbinn að dansa!

Frumraun Inspector Spacetime, átta laga breiðskífa samnefnd sveitinni, er plata vikunnar á Rás 2 og verður flutt í heild sinni auk kynninga Inspector Spacetima á lögunum eftir 10-fréttir í kvöld og er aðgengileg í spilara hér að ofan.

Mynd með færslu
 Mynd: Inspector Spacetime
Inspector Spacetime - Inspector Spacetime