Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Hundruðum bjargað á Miðjarðarhafi

25.01.2021 - 01:18
Mynd með færslu
 Mynd: Ocean Viking/SOS Mediterranee - Twitter
Yfir 370 manns sem bjargað var um borð í björgunarskipið Ocean Viking undan ströndum Líbíu á síðustu dögum fá að fara í land á Sikiley. Hjálpar- og mannúðarsamtökin SOS Mediterranee, sem gera björgunarskipið út, greindu frá þessu á Twitter í kvöld. „Mikill léttir um borð í kvöld þar sem Ocean Viking var heitið örugg höfn í Augusta á Sikiley," skrifar talsmaður samtakanna, sem segir að skipið muni að líkindum leggjast að bryggju í fyrramálið. Ítalska strandgæslan hefur þó ekki staðfest þetta enn.

 

Í fyrri tilkynningu SOS Mediterranee kom fram að 374 hafi verið bjargað um borð í Ocean Viking í þremur aðskildum aðgerðum undanfarna daga. Þar af eru 160 börn, segir í tilkynningunni, flest þeirra fylgdarlaus.

Ákall samtakanna um aðstoð Líbíumanna skilaði engu og sneru þau sér þá til yfirvalda á Möltu og Ítalíu, þar sem veður fór versnandi. Ítalska strandgæslan sótti þungaða konu um borð í Ocean Viking á laugardag og kom henni undir læknis hendur.

Ocean Viking er eina björgunarskipið sem haldið er úti á Miðjarðarhafinu af frjálsum félagasamtökum um þessar mundir. Flest reynir flóttafólkið að komast til Evrópu frá Líbíu eða Túnis. Yfir 1.200 manns fórust á þessari leið í fyrra.