Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Elísabet tekur ekki við íslenska landsliðinu

Mynd með færslu
 Mynd: Aftonbladet - RUV

Elísabet tekur ekki við íslenska landsliðinu

25.01.2021 - 11:25
Elísabet Gunnarsdóttir mun ekki taka við þjálfun íslenska kvennalandsliðsins. Hún mun áfram stýra Kristianstad í sænsku deildinni en segir að það hafi ekki verið vilji hjá KSÍ að hún yrði í tvöföldu starfi.

Elísabet greinir frá þessu í samtali við Fótbolti.net í dag. 

Þar segir að viðræður hafi gengið vel lengst af en fyrir helgi hafi forsendurnar breyst. 

„Þau höfðu samband við mig í byrjun janúar og ég fór á tvo fundi með þeim. Ég hef líka átt einhver mini samtöl þess á milli. Við höfum rætt það í tvær vikur að ég þjálfi Kristianstad áfram í ár og landsliðið og að ég myndi síðan hætta hérna úti og fara alfarið í landsliðsverkefnið. Ég ætla að vera alveg hreinskilin, ég hélt að við værum að finna lausn á þessu. Þetta er kóróna ár og það eru færri verkefni á venjulegu ári. Ég var mjög skýr, ég hef ótrúlega mikinn áhuga á þessu starfi og vildi finna lausn á þessu," sagði Elísabet við Fótbolta.net.

„Þau höfðu sam­band í janú­ar og þá var ég búin að skrifa und­ir samn­ing hér. Ég túlkaði þetta eins og það væri vilji til að finna lausn á þessu. Á fimmtu­dag­inn voru þau kom­in í hring með það að það gengi ekki að gera þetta sam­an í ár og ég yrði að hætta hérna inn­an þriggja mánaða. Að koma með það sem skil­mála 20. janú­ar er of seint. Ég er ekki þannig, hvorki sem mann­eskja né þjálf­ari, að labba frá liðinu þegar ég er búin að standa fyr­ir fram­an það og ræða mark­mið og strategíu fyr­ir árið. Ég get bara ekki gert það. Þar af leiðandi var það nei af beggja hálfu,“ seg­ir Elísa­bet enn­frem­ur í viðtal­inu og bæt­ir við:

„Ég er drullu­svekkt með þetta. Svona er þetta. Ég ber virðingu fyr­ir því að þau vilji ekki vera með þjálf­ara í tvö­földu starfi. Ég hlýt að hafa mistúlkað þetta brjálæðis­lega því mér fannst okk­ar viðræður vera þannig að við vær­um að finna lausn á þessu. Ég held að sá vilji hafi ekki endi­lega verið til staðar. Maður verður að bera virðingu fyr­ir því og vona að þeir ráði góðan mann í starfið. Þetta er rosa­lega spenn­andi lið að þjálfa.“

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Breiðabliks, hefur einnig verið í viðræðum við KSÍ um að taka við landsliðinu og þykir hann líklegasti kosturinn úr því að Elísabet er ekki lengur inni í myndinni.