Búið að slökkva eldinn - óvíst um framhaldið

25.01.2021 - 21:57
Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson / RÚV
Búið er að slökkva eldinn sem kom upp í þaki einbýlishúss við Kaldasel í kvöld. Þrjár stöðvar hafa verið sendar heim en ein verður eftir til að meta næstu skref. Hugsanleg þarf að fá grabba til að rífa þakið og opna það betur en erfiðlega gekk að ráða niðurlögum eldsins í kvöld þar sem húsið var mikið skemmt eftir eldsvoða í morgun. Það er væntanlega ónýtt.

Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu er ekki vitað hvort vakt verði við húsið í nótt. Verið sé að fara yfir það.

Allt tiltækt lið slökkviliðsins var kallað út á áttunda tímanum í kvöld eftir að tilkynnt var um reyk frá þakinu. Húsið skemmdist mikið í eldsvoða í morgun og því reyndist slökkvistarf í kvöld nokkuð erfitt.  Ekkert er vitað um eldsupptök.