Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Biden framlengir ferðabann til Bandaríkjanna

25.01.2021 - 00:41
epa08962989 The South Lawn of the White House is seen before US President Joe Biden departs to the Holy Trinity Catholic Church in the Georgetown neighborhood of Washington, DC, USA, 24 January 2021.  EPA-EFE/Oliver Contreras / POOL
 Mynd: EPA-EFE - Sipa USA POOL
Joe Biden, Bandaríkjaforseti, hyggst framlengja bann við ferðum annarra en bandarískra ríkisborgara til Bandaríkjanna frá Brasilíu, Bretlandi og öllum eða flestum Schengen-ríkjum. Þá tekur bannið líka til farþega frá Suður-Afríku og allra þeirra sem nýlega hafa verið í Suður-Afríku, jafnvel þótt þau ferðist frá ríkjum sem ekki eru á bannlistanum. Markmiðið er að stemma stigu við útbreiðslu nýrra og að líkindum meira smitandi afbrigða af COVID-19.

Reuters-fréttastofan hefur þetta eftir embættismanni í bandaríska heilbrigðiskerfinu.

Ferðabann átti að falla úr gildi á þriðjudag

Donald Trump gaf út tilskipun um að aflétta skyldi gildandi ferðabanni frá Brasilíu og Evrópuríkjunum í liðinni viku og átti sú tilskipun að ganga í gildi á þriðjudag. Tilskipun Bidens tekur hins vegar gildi á morgun og kemur þannig í veg fyrir afléttingu bannsins.

Dr. Anne Schuchat, aðstoðarforstjóri bandarísku smitsjúkdóma- og sóttvarnastofnunarinnar, segir að ákveðið hafi verið að bæta Suður-Afríku á bannlistann vegna nýja afbrigðisins sem þar geisar.

Grímuskylda í almenningssamgöngum og krafa um neikvætt COVID-19 próf

Í vikunni ganga einnig í gildi reglur um grímuskyldu fyrir öll þau sem eldri eru en tvævetur og ferðast með almenningssamgöngum eða deila farkostum með fólki utan eigin fjölskyldu. Grímuskylda verður því í innanlandsflugi, ferjum, lestum, neðanjarðarlestum, sporvögnum og strætisvögnum, leigubílum og deilibílum.

Að auki er kveðið á um að hver sá sem ferðast til Bandaríkjanna frá öðru ríki skuli framvísa vottorði um neikvætt COVID-19 sýni, sem tekið er innan við þremur sólarhringum áður en lagt er af stað. Eina undantekningin frá þessu er fólk sem getur framvísað vottorði um að það hafi þegar veikst og náð bata af COVID-19.