Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Best að hafa varann á þegar farið er um fjöll"

25.01.2021 - 12:18
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Hættustigi vegna snjóflóðahættu á Ísafirði hefur verið aflétt og rýmingu atvinnuhúsnæðis í bænum líka. Óvissustig er enn á norðanverðum Vestfjörðum og á Norðurlandi. Ofanflóðasérfræðingur hjá Veðurstofunni segir að endurmeta þurfi aðstæður þar sem byggð er undir varnargörðum.

Snjóalög enn óstöðug

Töluvert hefur bætt í snjó og áfram er varað við snjóflóðahættu á Norðurlandi og á norðanverðum Vestfjörðum. Óvissustig er á svæðinu en hættustigi á Ísafirði var aflétt í morgun. Þótt veðrið hafi skánað eru snjóalög enn óstöðug. Veðurstofan varar vegfarendur sem eiga leið um svæði þar sem snjóflóð gætu fallið við og hvetur þá til að hafa varann á. Sveinn Brynjólfsson er ofanflóðasérfræðingur hjá Veðurstofunni. 

„Það náttúrlega hafa verið að falla býsna stór snjóflóð á Norðurlandi og fyrir vestan líka, á Vestfjörðunum, og alveg bara þangað til í gærkvöldi. Þannig að það er alveg greinilegt að snjóalög eru óstöðug þannig að það er best að hafa varann á þegar farið er um fjöll og undir hlíðar þar sem snjóflóð geta fallið," segir Sveinn. 

Nú voru einhverjir sem búa undir varnargörðunum þarna á Siglufirði hissa á að gripið hefði verið til svo drastískra aðgerða að rýma, er einhver ný nálgun í þessu eða hver er ástæðan fyrir því að farið var þessa leið?

„Já það er náttúrlega bara reynslan frá því í fyrra á Flateyri þar sem flæddi fyrir garðana þar. Það bara sýnir okkur að við þurfum að endurmeta aðstæður þar sem eru svona leiðigarðar eða varnargarðar yfirleitt."

Áfram éljagangur á Norður- og Austurlandi og líkur á samgöngutruflunum

Veðurstofan gerir ráð fyrir norðan- og norðaustankalda og allhvössum vindi í dag, víða 8 til15 metrum á sekúndu. Áfram verður éljagangur á Norður- og Austurlandi, og eru því enn líkur á samgöngutruflunum á þeim slóðum. Vetrarfærð er þannig í flestum landshlutum en þó er greiðfært með suðausturströndinni. Vegfarendur eru hvattir til að fylgjast vel með færð og veðurspám áður en lagt er í ferðalög.