Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Bandaríkjamenn mæta á leiðtogafund um loftslagsmál

25.01.2021 - 04:50
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
John Kerry, sérstakur erindreki Bandaríkjastjórnar í loftslagsmálum, slæst í dag í hóp þeirra Angelu Merkel Þýskalandskanslara, Emmanuels Macrons, Frakklandsforseta, Borisar Johnsons, forsætisráðherra Breta og fleiri leiðtoga á alþjóðlegri netráðstefnu um loftslagsmál. Á ráðstefnunni er ætlunin að leggja fram og ræða hagnýtar lausnir og raunsæjar áætlanir um viðbrögð gegn loftslagsvánni til næstu tíu ára.

 Joe Biden tilkynnti að Bandaríkin hygðust gerast aðilar að Parísarsamkomulaginu á nýjaleik skömmu eftir að hann var kjörinn forseti í nóvember, og undirritaði forsetatilskipun þess efnis daginn sem hann tók formlega við embættinu.

Forveri hans, Donald Trump, tilkynnti strax árið 2017 að hann hygðist draga Bandaríkin út úr samkomulaginu, þar sem það kæmi illa við bandarískt efnahagslíf og væri óhagfellt Bandarískum hagsmunum almennt. Rúmum tveimur árum síðar, í nóvember 2019, sagði Trump Bandaríkin úr Parísarsamkomulaginu. Ári síðar, í nóvember 2020, tók úrsögnin gildi. 

Upphaflega var hér ritað að BIden hefði undirritað forsetatilskipun um að Bandaríkin skyldu gerast aðilar að Parísarsamkomulaginu á ný, daginn eftir að hann tók við forsetaembættinu. Hið rétta er að hann gaf út tilskipun þess efnis strax á fyrsta degi í embætti.