Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

175 tilkynningar um aukaverkanir af COVID-bólusetningu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson, Vi - RÚV
Lyfjastofnun hefur borist 175 tilkynningar vegna gruns um aukaverkanir af kórónuveirubóluefnum Pfizer/Bio NTech og Moderna. Hlutfallslega eru fleiri tilkynningar vegna bóluefnis Moderna en vegna bóluefnis Pfizer/Bio NTech. Forstjóri Lyfjastofnunar segir að ekki sé hægt að draga neinar ályktanir af þessu. Engar nýjar tilkynningar um alvarlegar aukaverkanir hafa borist síðan í síðustu viku.

4.787 Íslendingar hafa fengið Comirnaty, bóluefni Pfizer/Bio NTech og 1.259 hafa fengið bóluefni Moderna samkvæmt upplýsingavef covid.is um bólusetningar. 119 tilkynninganna eru vegna bóluefnis Pfizer og Bio NTech og átta þeirra eru alvarlegar.

56 tilkynningar eru vegna bóluefnis Moderna og þar af er ein alvarleg.

Hlutfallslega eru því fleiri tilkynningar  vegna bóluefnis Moderna en Pfizer/Bio NTech; 4,4% þeirra sem hafa fengið fyrrnefnda bóluefnið hafa tilkynnt um aukaverkanir og 2,4% þeirra sem hafa fengið það síðarnefnda.  Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, segir að ekki sé hægt að draga neinar ályktanir af þessu. „Skýringin á þessu gæti verið að heilbrigðisstarfsmenn eru í meirihluta þeirra sem hafa fengið bóluefni Moderna. Þeim ber að tilkynna aukaverkanir,“ segir Rúna. Þá hafi yngra fólk fengið bóluefni Moderna og gert sé ráð fyrir meiri staðbundnum aukaverkunum hjá yngri hópunum en þeim sem eldri eru.