
Tugir mótmælenda handteknir í Hollandi
Mörg hundruð manns söfnuðust saman í miðborg Amsterdam þar sem lögregla beitti hundum og vatnssprautum í von um leysa upp mótmælin. Í Eindhoven, í suðurhluta landsins, voru að minnsta kosti þrjátíu handteknir eftir að hópur mótmælenda kveikti í bílum og skemmdi sölubása við aðallestarstöð bæjarins. Þar beitti lögregla táragasi gegn mótmælendum.
Í Urk í norðurhlutanum kveiktu mótmælendur í COVID-skimunarstöð og AFP fréttastofan hefur eftir Hugo de Jonge, heilbrigðisráðherra landsins, að með íkveikjunni hafi mótmælendur farið yfir öll mörk.
Útgöngubannið, sem tók gildi í gær, er það fyrsta sem stjórnvöld í Hollandi hafa gripið til í faraldrinum, og það fyrsta í landinu frá því á tímum seinni heimstyrjaldarinnar. Nú þegar eru í gildi strangar takmarkanir í landinu, veitingastaðir og skemmtistaðir eru lokaðir og frá því í desember hafa skólar verið lokaðir, og flestar verslanir.