Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Þetta eru fyrirmyndardrengir og miklir snyrtipinnar“

Mynd: EPA / EPA

„Þetta eru fyrirmyndardrengir og miklir snyrtipinnar“

24.01.2021 - 14:00
Íslenska karlalandsliðið í handbolta tók með sér 30 ferðatöskur fullar af æfinga- og keppnisfatnaði á heimsmeistaramótið í Egyptalandi. Maðurinn sem ber ábyrgð á öllum þessum fatnaði er liðsstjórinn Guðni Jónsson.

„Ég sé um allan æfinga- og keppnisfatnað fyrir hópinn. Svo sit ég einnig tæknifundi fyrir leiki þar sem er farið yfir liti á treyjum auk þess sem farið er yfir vegabréf og ýmis atriði sem þurfa að vera á hreinu,“ segir Guðni aðspurður um hlutverk liðsstjórans. Guðni er hokinn af reynslu í hlutverkinu því fyrir utan að hafa gegnt starfi liðsstjóra hjá landsliðinu um árabil hefur hann verið í sama hlutverki hjá Val.

Fleiri en venjulega í hópnum

Vegna Covid-19 voru reglur um leikmannahópa rýmkaðar fyrir HM og af þeim sökum eru tuttugu leikmenn í íslenska hópnum í Egyptalandi. 

„Já, þetta eru fleiri en venjulega. Ég var nú að telja þetta áðan og við fórum með 30 búningatöskur með okkur. Þetta eru búninga- og æfingasett og svo tekur maður líka með eitthvað til vara ef búningar rifna og svoleiðis,“ segir Guðni sem þarf þó ekki að þvo öll herlegheitin sjálfur. 

„Nei ég er heppinn að því leyti. Öll aðstaða hér á hótelinu er til mikillar fyrirmyndar og fatnaðurinn er þrifinn á hverjum degi fyrir okkur. En það hafa komið mót þar sem ég hef þurft að þrífa allt saman sjálfur. Þá er maður léttur og kátur,“ segir Guðni sem ber leikmönnum vel söguna þegar talið berst að umgengni um klefa.

Ekki mikið um sérþarfir

„Þetta eru allt fyrirmyndardrengir og snyrtipinnar,“ segir Guðni sem þarf því lítið að týna upp drasl eftir strákana í klefanum. Þó er eitthvað um sérþarfir og þær þarf Guðni að leggja á minnið. 

„Það eru sumir sem vilja kannski vera í treyju sem er í stærð L en stuttbuxum sem eru í XXL og eitthvað svoleiðis. En annars er ekki mikið um sérþarfir.“