
Svíar banna ferðir frá Noregi
Sænsk stjórnvöld vara landsmenn einnig við ferðum til Noregs, sem og til allra ríkja utan EES og Schengen.
Svíar og fleiri undanþegnir reglunum
Sendiráð Íslands í Stokkhólmi ráðleggur Íslendingum sem ferðast til Svíþjóðar að fljúga ekki í gegnum Noreg, Danmörku eða Bretland, nema þeim sem eru undanskildir reglunum en það eru: Sænskir ríkisborgarar og þeir sem búa og/eða starfa í Svíþjóð, þeir sem starfa við vöru- og farþegaflutninga, börn undir 18 ára sem ferðast til foreldra í Svíþjóð, og sendierindrekar erlendra ríkja og fulltrúar alþjóðastofanana. Þá eru undanþegnir reglunum þeir sem ferðast af mjög aðkallandi fjölskylduástæðum á borð við fæðingar, andlát og líknandi meðferð náins aðstandanda.
Sænsk stjórnvöld gera einnig þá kröfu að þeir sem falla undir undanþágurnar og ferðast frá Bretlandi framvísi neikvæðri niðurstöðu úr PCR-smitprófi sem tekið er að hámarki 72 klst fyrir komuna til Svíþjóðar. Það á þó ekki við sænska ríkisborgara eða þá sem sinna vöruflutningum á milli landanna.
Aðgerðir nýlega hertar í Noregi
Í gærmorgun var greint frá því að breska afbrigði kórónuveirunnar væri farið að breiðast um Austur-Noreg. Ákveðið var að grípa til harðari aðgerða í Ósló og níu öðrum sveitarfélögum í nágrenninu. Aðgerðirnar gilda út mánuðinn. Nánast allar samkomur eru bannaðar, skólastarf verður skert eins og hægt er og veitingastöðum, skemmtigörðum, íþróttahúsum og fleiru slíku verður lokað. Það á einnig við um verslanir, nema matvöru- og lyfjabúðir og bensínstöðvar.