Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Svíar banna ferðir frá Noregi

24.01.2021 - 17:06
epa08761815 People pass a trash can with a sign reading 'The danger is not over - Keep your distance' in a pedestrian street in central Uppsala, Sweden, 21 October 2020. Due to an increase of Covid-19 cases in the region of Uppsala, new local recommended restrictions has been instated to curb the corona pandemic.  EPA-EFE/Claudio Bresciani SWEDEN OUT
 Mynd: EPA
Sænsk stjórnvöld hafa lýst því yfir að bann við ferðum til landsins frá Noregi taki gildi á miðnætti í kvöld, vegna hraðrar útbreiðslu kórónuveirunnar í Noregi. Bann við ferðum frá Danmörku og Bretlandi hefur verið í gildi í Svíþjóð frá því í lok desember. Komubannið frá öllum ríkjunum gildir til 14. febrúar.

Sænsk stjórnvöld vara landsmenn einnig við ferðum til Noregs, sem og til allra ríkja utan EES og Schengen.

Svíar og fleiri undanþegnir reglunum

Sendiráð Íslands í Stokkhólmi ráðleggur Íslendingum sem ferðast til Svíþjóðar að fljúga ekki í gegnum Noreg, Danmörku eða Bretland, nema þeim sem eru undanskildir reglunum en það eru: Sænskir ríkisborgarar og þeir sem búa og/eða starfa í Svíþjóð, þeir sem starfa við vöru- og farþegaflutninga, börn undir 18 ára sem ferðast til foreldra í Svíþjóð, og sendierindrekar erlendra ríkja og fulltrúar alþjóðastofanana. Þá eru undanþegnir reglunum þeir sem ferðast af mjög aðkallandi fjölskylduástæðum á borð við fæðingar, andlát og líknandi meðferð náins aðstandanda. 

Sænsk stjórnvöld gera einnig þá kröfu að þeir sem falla undir undanþágurnar og ferðast frá Bretlandi framvísi neikvæðri niðurstöðu úr PCR-smitprófi sem tekið er að hámarki 72 klst fyrir komuna til Svíþjóðar. Það á þó ekki við sænska ríkisborgara eða þá sem sinna vöruflutningum á milli landanna.

Aðgerðir nýlega hertar í Noregi

Í gærmorgun var greint frá því að breska afbrigði kórónuveirunnar væri farið að breiðast um Austur-Noreg. Ákveðið var að grípa til harðari aðgerða í Ósló og níu öðrum sveitarfélögum í nágrenninu. Aðgerðirnar gilda út mánuðinn. Nánast allar samkomur eru bannaðar, skólastarf verður skert eins og hægt er og veitingastöðum, skemmtigörðum, íþróttahúsum og fleiru slíku verður lokað. Það á einnig við um verslanir, nema matvöru- og lyfjabúðir og bensínstöðvar.