Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Snjóflóð varð í Skagafirði í gærmorgun eða fyrrinótt

24.01.2021 - 07:44
Mynd með færslu
 Mynd: Landmælingar Íslands
Snjóflóð féll í gær skammt frá bænum Smiðsgerði í Skagafirði, undir Kolbeinsstaðahnjúkum. Engan sakaði í flóðinu og það eina sem skemmdist var bárujárnsskúr, sem það hreif með sér. mbl.is greinir frá og hefur eftir Óliver Hilmarssyni, snjóflóðasérfræðingi á Veðurstofunni, að flóðið hafi að líkindum fallið í fyrrinótt eða snemma í gærmorgun. Það stöðvaðist um 250 metra frá bænum.

Jón Árni Friðjónsson, ábúandi í Smiðsgerði, segir í samtali við mbl.is að hann hafi ekki kannað aðstæður enda veður leiðinlegt og skyggni lélegt. Hann segir skúrinn hafa verið áratugagamlan og ekki merkilega byggingu. Jón Árni telur líklegt að fleiri flóð hafi fallið úr hlíðinni en segist ekkert hafa að óttast, þar sem bæði tún og önnur hús séu á milli hennar og íbúðarhússins.