Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Snjóflóð féll á veginn um Eyrarhlíð í nótt

24.01.2021 - 09:52
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Snjóflóð féll á veginn um Eyrarhlíð, milli Ísafjarðar og Hnífsdals, nótt. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni var vegurinn opinn með óvissustigi um snjóflóðahættu en honum lokað eftir að snjóflóðið féll.

Enn er í gildi óvissustig vegna snjóflóðahættu á Norðurlandi og norðanverðum Vestfjörðum og hættustig á Flateyri, Ísafirði og Siglufirði. Í gær voru nokkur íbúðarhús rýmd á Flateyri og reitur 9 á Ísafirði, þar sem eru atvinnuhúsnæði. Rýming á nokkrum íbúðarhúsum á Siglufirði er enn í gildi.

Heldur hefur dregið úr veðrinu frá því í gærkvöldi og minni úrkoma mælst á flestum sjálfvirkum úrkomumælum. Áfram gengur þó á með dimmum éljum og skafrenningi. Þrátt fyrir talsverða snjókomu og norðanátt á Austfjörðum hefur ekki verið lýst yfir óvissustigi vegna snjóflóðahættu þar. Langvarandi norðanveður hefur nú staðið yfir í hátt í viku en spár gera ráð fyrir að heldur eigi að lægja í dag og draga úr úrkomu. Áfram má þó búast við norðaustanstrekkingsvindi og éljum í dag og á morgun. Veðurstofan fylgist grannt með aðstæðum.