Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Segir lögreglumenn vera fordómalausa stétt

24.01.2021 - 13:10
Mynd: RÚV / RÚV
Fjölnir Sæmundsson, nýkjörinn formaður landsambands lögreglumanna segir að umræða um fordóma lögreglunar hafi hvatt hann til að gefa kost á sér sem málsvari fyrir lögreglumenn. Lögreglumenn séu ekki fordómafullir, þrátt fyrir að þurfa að takast á við flókin og krefjandi verkefni.

„Auðvitað get ég ekki talað fyrir einstaklinga, en sem stétt veit ég hvernig lögreglumenn hugsa. Ég hef stundum sagt að það eru sennilega engir fordómalausari en lögreglumenn því við erum að fást við allskonar fólk. Við erum að fást við gerendur og þolendur og þurfum að koma eins fram við báða. Ég hef tekið sem dæmi að ég hef setið í bíl og hádegismat með morðingjum og naugðurum og barnaperrum og ég þarf að koma fram við þá af sömu virðingu og aðra. Ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir því hvernig lögreglumenn þurfa að koma eins fram við alla,“ segir Fjölnir.

Rætt var við Fjölni í Silfrinu í morgun.Hann segir að lögreglumenn eigi erfitt með að svara fyrir sig í málum sem komast í umræðuna og fjallað er um til að mynda í fjölmiðlum.

„Yfirmenn lögreglunar eiga erfitt með að svara en það má tala um lögreglumenn endalaust í fjölmiðlum en við megum aldrei svara. Það hafa hringt í mig lögmenn og boðist til að fara í meiðyrðamál fyrir mig, en yfirmenn mínir segja bara nei nei, við erum ekkert að tala um þetta meira,“ segir Fjölnir.

Hann segir samstöðu innan lögreglunar ekki vera óeðlilega. Framburður lögreglumanna í málum sem snúa að misgjörðum annarra lögreglumanna sýni það að menn segja frá því ef menn ganga of langt til að mynda. Lögreglumenn séu ósáttir við tryggingamál sín.

„Við megum beita valdi í vissum tilfellum. Svo þegar eitthvað fer úrskeiðiss, þá stöndum við bara einir. Þá er allt í einu lögreglan ekki á bak við okkur, eða ríkið. Þá ertu bara orðinn einstaklingur sem gerðimistök. Lögreglumenn hafa lengi verið ósáttir við þetta veit ég,“ segir Fjölnir.

Hann vísar til máls sem átti sér stað fyrir nokkrum árum þar sem lögreglumaður þurfti að keyra utan í annan bíl til að stöðva för hans. Þegar málið fór fyrir dóm stóð hann sjálfur í málarekstrinum.

Stytting vinnuvikunar er fyrirliggjandi. Fjölnir segist ekki treysta því að fjármagn fáist fyrir styttingunni til að halda mönnun, sérstaklega utan höfuðborgarsvæðisins.

„Þar sem ég vinn, ég er varðstjóri á Hvolsvelli og er á 12 tíma vöktum og vinn u.þ.b. 15 vaktir á mánuði. Við styttingu vinnuvikunar fer ég að vinna 19 vaktir á mánuði, þá spyr maður sig er þetta ekki komið á móti sjálfu sér, á ég þá að vera meira að heiman við tyttingu vinnuvikunar. Þetta verður mjög erfitt víða um land, sérstaklega þar sem eru 12 tíma vaktir, á Akureyri, Suðurnesjum, þar þarf að bæta við vakt, og hvaðan eiga þeir lögreglumenn að koma?“ spyr Fjölnir.

Viðtal við Fjölni má sjá hér að ofan.