Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Merkilega kraftlaus heimsendir Georges Clooneys

Mynd: - / Netflix

Merkilega kraftlaus heimsendir Georges Clooneys

24.01.2021 - 10:00

Höfundar

Kvikmyndin The Midnight Sky er glæsileg á að líta, segir Gunnar Theodór Eggertsson gagnrýnandi, en myndin sé þess utan óspennandi og að mestu óeftirminnileg.

Gunnar Theodór Eggertsson skrifar:

George Clooney leikstýrir og leikur eitt aðalhlutverkanna, ásamt Felicity Jones, David Oyelowo og fleirum, í myndinni Miðnæturhiminn eða The Midnight Sky. Handritið byggir á bókinni Good Morning, Midnight eftir Lily Brooks-Dalton, og myndin var að hluta tekin upp hér á landi.

Myndin gerist í eftirmálum óskilgreindra hamfara sem hafa eyðilagt andrúmsloft Jarðar með einhvers konar geislavirkni og gert plánetuna óbyggilega mannfólki. Vísindamaðurinn Augustine Lofthouse, leikinn af Clooney, er einn eftir á rannsóknarstöð á norðurskautinu – allir aðrir Jarðarbúar munu vera látnir eða dauðadæmir – og þar stendur hann vaktina í von um að ná sambandi við geimfar sem er á leið aftur til Jarðar og veit ekki hvernig ástatt er á heimaplánetunni. Geimfarið er skipað vísindamönnum sem voru að rannsaka eitt tungla Júpíters, K-23, í von um að finna þar nýtt heimili fyrir mannfólkið – rannsóknarferð sem á rætur að rekja til hugmynda dr. Lofthouse, en hann hefur eytt ævinni í að skoða þetta tungl. Í gegnum endurlitssenur kemur í ljós að Lofthouse fórnaði fjölskyldulífi fyrir vinnuna og hafnaði ungri dóttur sem hann vildi ekki kynnast – allt tengist þetta persónusköpun hans og eftirsjánni sem fylgir honum bókstaflega við hvert fótmál í yfirgefinni rannsóknarstöðinni. Samhliða sögu Lofthouse kynnumst við geimförunum, hressum og kátum á heimleið, fljótandi í þyngdarleysi að feigðarósi, án þess að hafa hugmynd um hvað bíður þeirra.

Miðað við kvikmynd sem tekur á endalokum mannkynsins er Midnight Sky merkilega kraftlaus og óspennandi. Hún er glæsileg á að líta, því verður ekki neitað, brellurnar fínar, geimskipið flott hannað og sterk og skýr mynd dregin upp af einverunni bæði um borð í geimfarinu og á norðurskautinu. Hamfarir Jarðar eiga sér stað utan sögusviðsins og það er í raun skemmtilegt að myndin hlífi okkur við þeirri hlið mála, til þess að fókusera frekar á persónurnar og nærumhverfi þeirra. Myndin stillir vel upp framtíðarvoninni í geimnum til móts við nöturleikann á jörðu niðri, en kafar aldrei almennilega ofan í þessar hugmyndir. Áherslan er frekar á persónu Lofthouse og dularfulla unga stúlku sem hann finnur í leynum á yfirgefinni rannsóknarstöðinni – og þar með sektarkenndina sem hann upplifir gagnvart dótturinni sem hann afneitaði á árum áður – og allt mun þetta að sjálfsögðu tengjast áður en yfir lýkur, myndin er frekar fyrirsjáanleg hvað það varðar. Heimsendir er þannig settur fram í gegnum persónulegu sögu föður sem hefur snúið baki við barninu sínu og reynt að bæta upp fyrir það með því að hjálpa mannkyninu, sem virðist nú hafa verið gagnslaus tilraun – og þetta hljómar eins og gott söguefni, en það vantar eitthvað upp á dýptina í Midnight Sky, að minnsta kosti náði ég ekki nógu sterku sambandi við persónurnar. Frásögnin er brotin upp með senum úr fortíð vísindamannsins sem eru tilgerðarlegar og þvingaðar, svokallaðar upplýsingasenur sem eru til staðar fyrst og fremst til að mata okkar áhorfendur á baksögunni. Stemningin er frekar Hollywood-væmin út í gegn, tónlist alveg sérstaklega slæm hvað það varðar, og þótt sögurnar tvær tengist innbyrðis fannst mér þær líka skemma fyrir uppbyggingunni. Annars vegar fylgjum við einhvers konar útgáfu af The Road í frosti og snjó, þar sem dr Lofthouse dröslar stúlkunni í leit að öflugra loftneti á ísbreiðunni, og hins vegar fylgjum við léttníhilískri geimmynd, og þræðirnir tveir smella aldrei nógu vel saman svo myndin nái almennilegu flugi, spennu eða tilfinningadýpt.

Hún á þó sína spretti, einkum í síðari hlutanum, og þar er meðal annars að finna afar grípandi senu þar sem geimfararnir neyðast til að svífa út úr skipinu til að lagfæra radar og samskiptatæki – reglulega vel unnið og spennandi atriði sem ég mun seint gleyma – þótt ég vænti þess að restin af myndinni muni ekki sitja lengi eftir.