Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Lyfjastofnun segir Flixabi engu síðra en sambærileg lyf

24.01.2021 - 18:41
Mynd með færslu
 Mynd: Landspítalinn
Skömmu eftir að samheitalyfið Flixabi kom fyrst á markað árið 2016, réðust Lyfjastofnun og Landspítalinn í sérstakt átak við að tilkynna aukaverkanir af lyfjum. Sérfræðingur hjá Lyfjastofnun segir þetta skýra það að hluta, hvers vegna jafnmargar tilkynningar bárust vegna þess á fjórum árum, og vegna frumlyfsins á 20 árum. 

Veik í tíu mánuði eftir að hafa fengið lyfið

Í sjónvarpsfréttum í gær var rakin saga Írisar Hafþórsdóttur sem fékk miklar aukaverkanir af samheitalyfinu Flixabi. Hún hafði lengi tekið frumlyfið Remicade, við meltingafærasjúkdómnum Crohn's, með góðum árangri en árið 2019 var lyfjagjöf hennar breytt og eftir að hafa í tvígang fengið Flixabi gerðu miklar aukaverkanir vart við sig. Í stuttu máli var Íris veik í tíu mánuði.

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Íris Hafþórsdóttir.

Lyfjastofnun hefur frá árinu 2016 fengið yfir 60 tilkynningar vegna lyfsins, álíka margar og borist hafa vegna forvera þess, Remicade, frá árinu 2000. Hrefna Guðmundsdóttir, sérfræðingur hjá Lyfjastofnun, segir að þetta geti að hluta til átt sér eðlilegar skýringar. „Árið 2017 var samstarf á milli Lyfjastofnunar og Landspítala með það að markmiði að fjölga tilkynntum aukaverkunum, við vorum í raun miklir eftirbátar annarra Evrópuþjóða með það að láta vita af aukaverkunum.“ Á sama tíma var líka farið að merkja ný lyf með svörtum þríhyrningi í því skyni að hvetja fólk til að tilkynna aukaverkanir.

Talið jafngott og önnur sambærileg lyf

Ávinningur af lyfinu var metinn árið 2018, þá þótti engin ástæða til að hætta að nota það, enda ekki hægt að lesa út úr samevrópskum gagnagrunni að aukaverkanir af því séu meiri eða alvarlegri en af sambærilegum lyfjum. Í framhaldi var lyfið tekið úr árlegu endurmati og ákveðið að fylgjast með því á þriggja ára fresti. Næst tekur Lyfjastofnun það fyrir í sumar.  En er það þá ásættanleg áhætta að einhverjir sjúklingar fái langvarandi aukaverkanir? „Það er aldrei hægt að taka lyf af markaði út af einu tilfelli þar sem maður veit ekki alveg allar forsendur,“ segir Hrefna. Hún leggur áherslu á mikilvægi þess að tilkynna allar aukaverkanir, það sé stór liður í að auka lyfjaöryggi. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV