Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Krabbameinsfélagið segir ranga greiningu mjög fátíða

Mynd með færslu
 Mynd:
Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins, segir að röng greining á leghálssýnum sé mjög fátíð og að árangurinn hér á landi sé góður. Fréttastofa birti í gær viðtal við Hönnu Lind Garðarsdóttur sem fékk ranga greiningu úr leghálsskimun hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins í nóvember.

Þegar Hanna fékk svör frá Leitarstöðinni, um að ekkert óeðlilegt hefði fundist við greiningu á leghálssýni hennar, hafði hún þegar greinst með krabbamein í rannsókn á Landspítalanum. Við endurskoðun á sýninu á Leitarstöðinni komu í ljós óeðlilegar frumur sem Hönnu var sagt að hefðu átt að hafa greinst.

„Hugur félagsins er auðvitað alltaf hjá þeim sem greinast með krabbamein og þurfa að fara í meðferð við því. Greining meinanna verður stundum, að því er virðist, fyrir tilviljun eins og þarna er lýst, þar sem einkenni eru ekki komin fram og það er auðvitað í sjálfu sér jákvætt, þar sem það greindist snemma og því hægt að bregðast við strax, þó afleiðingarnar séu miklar,“ segir Halla Þorvaldsdóttir í samtali við fréttastofu, spurð um viðbrögð Krabbameinsfélagsins við atvikum sem því sem Hanna Lind lýsti í viðtalinu.

Segir árangur af skimun hér á landi mjög góðan

Eftir að Hanna fékk ranga niðurstöðu úr greiningu hjá Leitarstöðinni sendi hún þangað tölvupóst og lét vita að hún hefði þá þegar greinst með krabbamein. Sýnið var þá skoðað betur og Hanna fékk þau svör að krabbameinsfrumur hefðu fundist á jaðri sýnisins, sem hefðu átt að greinast. 

Þegar Halla er spurð hvort mál sem þessi hafi oft komið upp segir hún að árangur af skimun hér á landi sé mjög góður og að röng greining sé fátíð. „En eins og áður hefur komið fram er skimun ekki 100 prósent trygging fyrir því að konur fái ekki krabbamein,“ segir hún og bætir við að Ísland sé á pari við hin Norðurlöndin og Bandaríkin, með besta árangur í heimi. 

En hvers vegna gerist þetta? Leitarstöðin sá óeðlilegar frumur við endurskoðun á sýninu. Hvers vegna greinast þær ekki strax við fyrstu skoðun?

„Rannsóknir á leghálssýnum er mikil nákvæmnisvinna. Ýmsir þættir geta valdið því að frumubreytingar greinast ekki og margt gert til að draga úr líkum á því, þrátt fyrir það er skimunin ekki 100% trygging, því miður. Sem betur fer er það mjög sjaldgæft að frumubreytingar greinist ekki,“ segir Halla.

Nýr tækjabúnaður tekinn í notkun í fyrra

Greint var frá því í haust að Leitarstöðin hefði þurft að taka til endurskoðunar sex þúsund leghálssýni eftir að í ljós komu vankantar á greiningu sýna árið 2018. Nokkrir tugir kvenna fengu ranga greiningu og þær kallaðar aftur í sýnatöku. Að minnsta kosti ein reyndist með ólæknandi krabbamein. Í tilkynningu sem Krabbameinsfélagið sendi frá sér í kjölfarið kom fram að nýr tækjabúnaður hefði verið tekinn í notkun í fyrra sem ætti að draga úr hættu á mistökum starfsfólks við greiningu. 

Leghálsskimun var um áramótin færð frá Krabbameinsfélaginu til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, hefur sagt að breytingin feli í sér styttri biðtíma og árangursríkari skimun. Til Heilsugæslunnar fluttust líka pappakassar með um tvö þúsund ógreindum leghálssýnum frá Krabbameinsfélaginu, sem nú bíða greiningar hjá rannsóknarstofu í Danmörku, en stefnt er að því að framvegis verði leghálssýni greind þar.

Leitarstöðin er því ekki lengur starfrækt og þar var síðasta sýnið greint í nóvember, rétt eftir að sýni Hönnu var greint.