
Frábær skóli en líka grimmd og kynferðisofbeldi
Á sama plani og aðrar íþróttir
Tölvuleikir hafa lengi haft á sér neikvæðan stimpil. Nú er þetta að breytast, rafíþróttir eru komnar á sama plan og aðrar íþróttir og búið að stofna hátt í tuttugu rafíþróttadeildir innan íþróttafélaga landsins. „Þegar krakkarnir spila mikið og hafa áhuga fyrir þessu þá meikar ekkert annað sens en að hafa svona flott skipulagt starf þar sem þau geta mætt og iðkað sína íþrótt, hitt jafnaldra í leiðinni sem hafa sama áhugamál,“ segir Bjarki Már Sigurðsson, yfirþjálfari í rafíþróttadeild Fylkis.
Á námskeið Fylkis skrá sig oft krakkar sem ekki hafa fundið sig í öðrum íþróttum. „Þeir hafa komið hingað, sprungið út úr skelinni, blómstrað, orðið sterkari og það hefur sést í skóla og öðru.“
Bjarki Már segir einangrun krakka í þessum hópi ekki skrifast á áhugamálið, heldur það að ekki hafi verið skipulagt starf í boði fyrir þennan hóp.
Þakklát tölvuleikjum
Jana Sól Ísleifsdóttir, stefnir á atvinnumennsku í tölvuleiknum Overwatch og segir tölvuleiki góðan skóla. „Ég er mjög þakklát tölvuleikjum og liðinu sem ég er með því þetta hefur hjálpað mér mjög mikið. Þú lærir algerlega að vinna með liði, hvernig þú átt að snúa þér með fólki og bara eitt besta social skill sem þú getur haft ef þú ert með einhverja örðugleika þegar kemur að því að hafa samskipti við fólk.“
Sjálfsvíg tengd ofbeldi í tölvuleikjaheiminum
Jana Sól hefur spilað frá því hún var fimm ára og stefnir á atvinnumennsku í tölvuleiknum Overwatch. Hún lætur sig mannleg samskipti í tölvuleikjaheiminum miklu varða. Rafíþróttir eiga sér sínar skuggahliðar og skera sig úr að því leyti að oft er verið að spila við ókunnugt fólk um allan heim. Jana segir of mikið um niðurrif og einelti. „Fólk heldur að það megi gera hluti sem eru ekkert í lagi af því það er í gegnum skjá. Maður veit náttúrulega aldrei hvað hin manneskjan á bak við skjáinn er að fara í gegnum. Það eru mjög mörg sjálfsvíg sem tengjast því hvernig fólk lætur við aðra í tölvuleikjaheiminum.“
Stelpunum að fjölga
Almennt hallar mjög á konur í rafíþróttum. Af fimmtíu krökkum sem sækja námskeið hjá Fylki eru aðeins tvær eða þrjár stelpur. Félagið ætlar að reyna að bæta úr þessu með sérstöku átaki. „Það er svo mikið gatekeeping, að þetta sé bara fyrir stráka og allt þannig en sem betur fer er þetta byrjað að vera þannig að stelpur geta líka verið í þessu,“ segir Jana Sól.
Hún segir að styðja þurfi stelpur í íþróttinni og kenna þeim að brynja sig gagnvart ofbeldi og áreitni. „Bara hvernig er hægt að halda manni í lagi andlega út af því að kynferðisofbeldið er rosalegt í þessu og það þarf bara að kenna þeim hvernig á að takast á við það og líta fram hjá því flest skipti.“
Gera æfingar og kenna jákvæða spilunarhegðun
Fylkir er vakandi fyrir fleiri skuggahliðum tölvuleikjaheimsins, svo sem tölvuleikjafíkn, á æfingum eru gerðar líkamlegar æfingar og hugað að andlegri heilsu. „Við vitum að það getur verið mjög stressandi og tekið á að spila svona leiki, mikið keppniskap í krökkunum og svona og við þurfum náttúrulega bara að passa að kenna þeim þessa jákvæðu spilunarhegðun,“ segir Bjarki Már.