
Lítil kjörsókn í skugga farsóttar
Kjörsókn var með minnsta móti vegna kórónaveirufaraldursins en þó heldur meiri en óttast var. Fyrstu fréttir benda til þess að hún hafi verið á bilinu 45 - 50 prósent, en áhyggjur voru uppi um að hún yrði jafnvel undir 30 prósentum.
Kórónaveirusmitum hefur fjölgað mjög í Portúgal að undanförnu og kosningadagurinn var sjöundi dagurinn í röð, þar sem metfjöldi fólks hefur dáið af völdum COVID-19 þar í landi, eða 275. Þá hafa aldrei jafn margir COVID-19 sjúklingar legið á sjúkrahúsum Portúgals og nú.
Vinsæll forseti
de Sousa, sem sjálfur greindist með COVID-19 fyrr í þessum mánuði, er 72 ára gamall og var fyrst kjörinn forseti 2016. Hann hefur notið mikilla vinsælda, raunar svo mikilla að Sósíalistaflokkurinn sendi engan fulltrúa í framboð og lýsti ekki yfir stuðningi við sósíalistann Gomes, enda hefur forsetinn stutt minnihlutastjórn flokksins síðustu ár.
Portúgalsforseti er kosinn til fimm ára í senn og má lengst sitja í tvö kjörtímabil. Völd hans eru takmörkuð, líkt og völd forseta Íslands. Hann hefur þó heimild til að rjúfa þing og boða til kosninga, auk þess sem hann er æðsti yfirmaður hersins, að nafninu til.