Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Búast við að rýmingu verði aflétt í dag

24.01.2021 - 12:35
Flateyri í Önundarfirði janúar 2020
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Snjóflóð féll úr Skollahvilft ofan Flateyrar í nótt, en búist er við að rýmingu vegna snjóflóðahættu verði aflétt á Flateyri síðar í dag. Talið er að minnsta kosti þrjú hross hafi drepist þegar snjóflóð féll í Skagafirði í gær.

Í gær voru nokkur atvinnuhúsnæði á Ísafirði rýmd eftir að snjóflóð féllu í Skutulsfirði og síðdegis voru þrjú íbúðarhús rýmd á Flateyri vegna snjóflóðahættu. Hlynur Snorrason, yfirlögregluþjónn á Ísafirði segir að vel hafi gengið að rýma húsin.

„Þetta er nú allt fólk sem er eldra en tvævetur og kippir sér nú ekki mikið upp við svona öryggisráðstafanir. Það fóru allir til vina og ættingja,“ segir Hlynur.

Snjóflóð féll úr Skollahvilft ofan Flateyrar í nótt. Flóðið náði ekki niður að varnargarðinum. Þá féll snjóflóð á veginn um Eyrarhlíð milli Ísafjarðar og Hnífsdals og lokaði honum. Tómas Jóhannesson, ofanflóðasérfræðingur hjá Veðurstofunni, býst við að rýmingu verði aflétt á Flateyri í dag.

„Við munum skoða það síðdegis en ef veðrið heldur áfram svona þá eigum við von á því, já. Nú er flóðið fallið úr Skollahvilftinni þannig að það dregur úr hættu á að stærra flóð falli þar. Svo er reyndar þetta veður sem verið hefur ekki alveg eins slæmt og hefði getað verið út frá spánni í gær,“ segir Tómas.

Tómas brýnir þó fyrir fólki að áfram þurfi að fara varlega á svæðinu en varðskipið Þór er komið til Flateyrar. „Auðvitað erum við í alvöru snjóflóðahrinu miðað við öll þau flóð sem fallið þarna,“ segir hann.

Að óbreyttu verður rýming áfram í gildi á Siglufirði en þar hefur verið hættustig vegna snjóflóðahættu síðan á fimmtudag. Týr, varðskip Landhelgisgæslunnar, þurfti að sækja veikan mann þangað í gærkvöld og flytja sjóleiðina til Akureyrar.

„Þar er gert ráð fyrir einhverjum áframhaldandi éljagangi. Staðan verður metin aftur síðdegis en þessi rýming sem var gripið til þar undir varnargarðinum er enn í gildi og verður fram eftir degi,“ segir Tómas.

Enn er í gildi óvissustig vegna snjóflóðahættu á Norðurlandi. Í gær kom í ljós að snjóflóð hafði fallið ofan við bæinn Smiðsgerði í Skagafirði. Flóðið tók skúr sem stóð um 250 metra ofan við bæinn og talið er að minnsta kosti þrjú hross hafi drepist.

Þá unnu björgunarsveitarmenn á Þórshöfn og víðar á Norðausturhorninu þrekvirki þegar koma þurfti sjúklingi frá Þórshöfn til Akureyrar með hraði í gær. Þorsteinn Ægir Egilsson er formaður björgunarsveitarinnar Hafliða.

„Aðstæður voru virkilega slæmar. Það var stór snjóblásari sem var á undan okkur en samt dugði það ekki þar sem það skóf bara jafnharðan í förin þannig það þurfti að draga sjúkrabíl nokkrum sinnum upp úr snjó,“ segir Þorsteinn.