Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Arnar og Logi ósáttir við gagnrýni Guðmundar

Mynd: RÚV / RÚV

Arnar og Logi ósáttir við gagnrýni Guðmundar

24.01.2021 - 17:11
Arnar Pétursson og Logi Geirsson fóru yfir gagnrýni Guðmundar Guðmundssonar, landsliðsþjálfara, á þeirra störf í HM-stofunni á RÚV í dag. Þeir félagar telja gagnrýni Guðmundar ekki eiga rétt á sér.

Það vakti mikla athygli þegar Guðmundur beindi spjótum sínum að störfum þeirra Arnars og Loga í HM-stofunni í viðtali við RÚV eftir tapleikinn gegn Frakklandi á föstudag.

„Við erum alls ekki hafnir yfir gagnrýni,“ segir Arnar Pétursson, sem er einnig landsliðsþjálfari kvenna. „Við höfum reynt að vera kurteisir og orðvarir. Við höfum reynt að vera jákvæðir og eftir hvern einasta leik höfum við hrósað mönnum fyrir það sem vel er gert. Stundum svo mikið að við höfum fengið gagnrýni fyrir að vera of jákvæðir,“ segir Arnar.

Finnst þetta sorglegt

„Ég er hissa á Gumma. Ég er hissa á þessum viðbrögðum og finnst þetta í raun og veru sorglegt,“ bætir Arnar við. 

„Það er alveg eðlilegt að við höfum gagnrýnt sóknarleikinn á móti Sviss. Við skorum 18 mörk á móti liði sem er að keppa á sínu fyrsta stórmóti í 25 ár. Ef að það var ekki tilefni til að gagnrýna sóknarleikinn gegn Sviss þá veit ég ekki hvað má gagnrýna,“ sagði Arnar jafnframt. 

Fyrir neðan allar hellur

Guðmundur talaði í viðtalinu um að sérfræðingar RÚV hefðu viðhaft niðrandi ummæli um hans störf. 

„Ég er bara ekki sammála því og ég er bara mjög ósáttur við þessi ummæli hjá Guðmundi,“ segir Arnar og Logi tekur í sama streng.

„Guðmundur er bara svekktur. Þetta heimsmeistaramót hefur ekki verið gott. Hann sagðist fyrir þremur árum ætla að byggja upp lið og koma okkur í fremstu röð og það hefur ekki  verið að ganga,“ segir Logi sem lék undir stjórn Guðmundar í landsliðinu.

„Og talandi um skort á fagmennsku hjá okkur. Ég er rosalega ósammála því. Fagmennskan hjá honum að mæta í viðtal eftir leik og tala um okkur í stúdíóinu í staðinn fyrir að tala um liðið sitt finnst mér bara fyrir neðan allar hellur,“ segir Logi að lokum.