Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

„Alltaf gott að komast heim“

24.01.2021 - 19:45
Mynd: RÚV / RÚV
Rýmingu húsa á Flateyri og Siglufirði var aflétt í dag. Enn er þó hættustig vegna snjóflóðahættu á Ísafirði. Björgunarsveitarmenn stóðu í ströngu fyrir norðan í gær vegna veðurs.

Björgunarsveitarmenn á Þórshöfn unnu þrekvirki í gær þegar koma þurfti sjúklingi til Akureyrar með hraði í ófærð og þreifandi byl, eins og sjá má á þessum myndum. Auk björgunarsveitarinnar Hafliða voru ræstar út björgunarsveitir á Raufarhöfn og Húsavík, sjúkrabílar og snjómokstursmenn, enda landleiðin ein fær, þó með naumindum væri.

Einnig þurfti að sækja veikan mann á Siglufjörð í gærkvöld og var varðskipið Týr sent til verksins frá Akureyri. „Við fengum kall frá stjórnstöðinni okkar klukkan hálf tíu í gærkvöldi. Ástæðan var sjúkraflutningur á Siglufjörð og það voru auðvitað allir landvegir ófærir og ekki veður til þess að fljúga heldur. Það var flott hérna inn á firði en við vorum komnir í verra veður þegar utar dró, vorum komnir í sjö til átta metra ölduhæð og 40 hnúta vind hér í hafnarminninu fyrir Siglunesið,“ segir Einar Heiðar Valsson, skipherra á varðskipinu Tý.

Enn er í gildi óvissustig vegna snjóflóðahættu á Norðurlandi. Í gær félll snjóflóð ofan við bæinn Smiðsgerði í Skagafirði. Flóðið tók skúr sem stóð um 250 metra ofan við bæinn og talið er að minnsta kosti þrjú hross hafi drepist.

Varðskipið Þór sigldi vestur á firði í gær og var bundið við bryggju á Ísafirði seinnipartinn í dag. Atvinnuhús þar verða áfram rýmd vegna snjóflóðahættu.

Rýmingu var hins vegar aflétt á Siglufirði og á Flateyri í dag. Snjóflóð féll úr Skollahvilft ofan Flateyrar í nótt en það náði ekki niður að varnargarðinum.

„Það er alltaf gott að komast heim. Það er eiginlega sama hvaðan maður er að koma. Við fengum að vita það um hádegisbil og svo sem bjuggumst ekkert við öðru. Eins og sést hérna fyrir aftan mig þá er bara gott veður og sést vel upp í fjall,“ segir Steinunn Guðný Einarsdóttir, íbúi á Flateyri, sem var gert að yfirgefa heimili sitt í gær.

Steinunni fannst ekki óþægilegt að snúa heim aftur. „Þetta eru bara öryggisráðstafanir og ég held að enginn sé neitt sérstaklega hræddur. Það er ekkert mikill snjór. Ég held að það sé fullur skilningur á þessu.“