Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ævar Þór fyrsti sendiherra UNICEF á Íslandi

24.01.2021 - 14:28
Barnaefni · Innlent · Börn · sendiherra · UNICEF · Ævar Þór
Mynd: UNICEF / UNICEF
Ævar Þór Benediktsson, Ævar vísindamaður, tók í dag við hlutverki sendiherra barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF. Ævar Þór er fyrsti Íslendingurinn sem hlýtur þessa nafnbót, en af öðrum sendiherrum landsnenfnda víðar um heim má nefna sönkonuna Pink, leikarann Evan McGregor og knattspyrnumanninn Sergio Ramos.

Sendiherrar velja sér áherslusvið til tveggja ára, og valdi Ævar að leggja áherslu á réttindi barna til menntunar og menningar. 

„Menntun og menning er nokkuð sem hefur í raun litað allt það sem ég hef verið að gera síðustu tíu til fimmtán árin. Það lá beinast við að halda áfram á þeirri braut og reyna að nýta alla þá krafta og kunnáttu sem ég bý yfir til að hjálpa UNICEF í þessum tveimur málaflokkum,“ segir Ævar Þór.

Og ertu kominn með hugmyndir af einhverjum skemmtilegum verkefnum til að gera með íslenskum krökkum?

„Já, en ég má ekki segja frá neinum þeirra,“ segir Ævar og hlær. „En það eru nokkrar hugmyndir í gangi. Þetta er tveggja ára staða svo við höfum góðan tíma.“

Og er þetta fullt starf?

„Maður er alltaf að, hugmyndir, þegar maður fær þær malla alltaf í höfðinu eins og góð kjötsúpa. Maður er í raun alltaf í vinnunni þegar kemur að einhverju svona.“ 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV
arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV