Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Víðir óttast „svikalogn“ í faraldrinum

23.01.2021 - 11:30
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
„Við höfum áhyggjur af því að þetta sé svikalogn,“ segir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn í samtali við fréttastofu. „Það eru svo miklu færri að mæta í sýnatöku en áður og við erum að heyra að það sé töluvert um að fólk með einkenni sé á ferðinni og fari ekki í sýnatöku,“ segir hann. Einn greindist með COVID-19 í gær og sá var í sóttkví og í fyrradag greindist enginn.

Víðir segir mjög alvarlegt að fólk mæti ekki í sýnatöku, enda sé sýnataka eitt af grundvallartólunum til þess að halda faraldrinum niðri. „Þannig að ef fólk er með einkenni þá verður það að fara í sýnatöku og fá fullvissu um að það sé ekki með COVID-19,“ segir hann.

Fullsnemmt að leggja til tilslakanir

Víðir segir fullsnemmt að leggja til tilslakanir. Þótt tölurnar líti vel út þurfi að hafa í huga að enn séu aðeins tíu dagar síðan slakað var á takmörkunum. „Og við höfum séð það eftir fyrri tilslakanir, þá hefur oft komið bakslag seinna en það. Svo við þurfum að bíða og sjá. Og það var ekki að ástæðulausu sem að gildistími reglugerðarinnar var settur til 17. febrúar. Sérstaklega í ljósi þess hvernig faraldurinn er í löndunum í kringum okkur, faraldurinn er í mikilli siglingu,“ segir hann.

Afhverju heldurðu að fólk fari síður í sýnatöku en áður?

„Ég held að það tengist því að smittölurnar eru lágar og fólk hugsar að líkurnar á því að það sé með COVID-19 séu svo litlar. Það heldur frekar að það sé bara með kvef. En þetta er stórhættulegt viðhorf, við verðum að halda áfram, fara í sýnatöku og fylgja leiðbeiningum,“ segir hann.

Langt í að bólusetning hafi áhrif á aðgerðir

Sumir af viðkvæmustu hópunum hafa nú verið bólusettir við COVID-19 og aðspurður hvort það hafi áhrif á ákvarðanir á tilslökun takmarkana segir Víðir svo ekki vera.„Það róar okkur auðvitað en til þess að bólusetning hafi raunveruleg áhrif á innlagnir á spítalann og dauðsföll þá þurfum við að bólusetja á bilinu 30-50 þúsund manns. Svo við eigum verulega langt í land með að bólusetningar fari að hafa áhrif á tilslakanir,“ segir Víðir.