Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ungverjar og Spánverjar áfram eftir sigur Ungverjalands

Mynd: EPA / EPA

Ungverjar og Spánverjar áfram eftir sigur Ungverjalands

23.01.2021 - 16:40
Ungverjand tryggði sér sæti í 8-liða úrslitum heimsmeistaramótsins í handbolta með sigri á Póllandi í Egyptalandi í dag. Sigur Ungverja var einnig kærkominn fyrir Spánverja því þeir fylgja Ungverjum áfram í 8-liða úrslitin.

Það voru Pólverjar sem skoruðu fyrsta markið en eftir það tóku Ungverjar leikinn yfir með Mate Lekai fremstan í flokki en hann var magnaður í kvöld. Lekai skoraði átta mörk auk þess að mata félaga sína af stoðsendingum. Þá stóð Roland Mikler vaktina vel í marki Ungverja.

Pólverjar voru alltaf nokkrum skrefum á eftir og eltu allan seinni hálfleikinn. Í raun var sigur Ungverja aldrei í hættu og það fór svo að Ungverjaland vann með fjögurra marka mun, 30-26.

Línur skýrast en óvæntur sigur Argentínu

Ungverjaland er ennþá með fullt hús stiga í keppninni en Ungverjar fóru upp fyrir Spán með sigrinum. Úrslit leiksins þýða að Spánn er líka komið áfram í 8-liða úrslit þar sem Pólland getur ekki lengur farið upp fyrir Spán.

Argentína og Króatía mættust svo í áhugaverðum leik í dag. Argentína hafði fjögur stig og Króatar fimm fyrir leikinn. Staðan var jöfn í hálfleik, 12-12 en í þeim síðari fór allt í handaskolum hjá Krótöum á meðan Argentínumenn spiluðu á fullu gasi.

Argentína var komið fimm mörkum yfir, 22-17 þegar skammt var eftir af leiknum. Argentína vann leikinn 23-19  og fór þar með upp fyrir Króatíu á stigum. Argentína getur með sigri á Katar á mánudag komist í 8-liða úrslitin.

Þá vann Katar öruggan sigur á Barein, 28-23, en Halldór Jóhann Sigfússon og hans menn bíða enn eftir fyrstu stigunum í milliriðli.

Nú klukkan 19:30 mætir Japan, undir stjórn Dags Sigurðssonar, svo heimsmeisturum Danmerkur. Leikurinn verður sýndur beint á RÚV 2.