
Tvö snjóflóð féllu á þjóðveg 1 um Öxnadalsheiði
Fyrra snjóflóðið féll um níuleytið og lokaði veginum. Enginn bíll lenti í flóðinu en um 15 bílar voru stopp sitthvoru megin við það og komust hvergi vegna ófærðar.
Lögregla og björgunarsveitir úr Eyjafirði og Skagafirði fóru þá á heiðina, losuðu um bíla og hjálpuðu fólki til byggða. Það verkefni var langt komið og aðeins þrír bílar enn fastir þegar seinna snjóflóðið féll á svipuðum stað, um miðnæturbil.
Fólk drifið niður af heiðinni vegna snjóflóðahættu
Smári Sigurðsson, í aðgerðastjórn Landsbjargar í Eyjafirði, segir að þá hafi fólkið í síðustu bílunum einfaldlega verið kallað yfir í björgunarsveitarbíla og flutt niður af heiðinni hið snarasta en bílarnir skildir eftir, enda talin hætta á frekari flóðum.
Smári segir veður hafa verið þokkalegt á heiðinni en mikil ofankoma gerði fólki erfitt fyrir. Veður var hins vegar öllu verra í Öxnadalnum. Að sögn Smára er ekki óalgengt að snjóflóð falli í og við Öxnadalsheiðina, en harla fátítt að þau falli á þjóðveginn. Um eða yfir 40 manns tóku þátt í aðgerðunum á Öxnadalsheiðinni, sem lauk nú á öðrum tímanum í nótt. Aðstæður á heiðinni verða kannaðar með morgninum.
Talsvert um útköll vegna ófærðar og eitt vegna svangra skepna
Leiðindaveður hefur verið á öllu norðan- og vestanverðu landinu í dag og fjallvegir flestir ófærir. Norðanhríð hefur spillt hvorutveggja skyggni og færð og að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, fóru björgunarsveitir á Norður- og Austurlandi í á annan tug útkalla í dag, einkum vegna bílstjóra í vanda.
Flest voru útköllin vegna vandræða á Holtavörðuheiði, Tröllaskaga og svo á Öxnadalsheiðinni. Þá aðstoðuðu björgunarsveitarmenn í Ólafsfirði bónda nokkurn innst í firðinum með því að flytja skepnum hans fóður á vélsleðum.