Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Þjálfari Króatíu sagði af sér í sjónvarpsviðtali

epa08960864 Croatia's head coach Lino Cervar reacts during the Main Round match between Argentina and Croatia at the 27th Men's Handball World Championship in Cairo, Egypt, 23 January 2021.  EPA-EFE/Anne-Christine Poujoulat / POOL
 Mynd: EPA

Þjálfari Króatíu sagði af sér í sjónvarpsviðtali

23.01.2021 - 19:53
Lino Cervar, landsliðsþjálfari Króatíu í handbolta, tilkynnti afsögn sína í sjónvarpsviðtali beint eftir leik gegn Argentínu á heimsmeistaramótinu í Egyptalandi í kvöld. Króatía tapaði leiknum óvænt, 23-19, og Cervar taldi best að segja af sér.

Cervar klárar þó lokaleik Króatíu á HM en liðið á raunar enn möguleika á því að tryggja sér sæti í 8-liða úrslitum. Þá þarf liðið að vinna Danmörku og treysta á að Katar vinni Argentínu. Cervar átti að stýra Króatíu fram yfir Ólympíuleikana í Tókýó.

Cervar er goðsögn í heimalandinu enda hefur hann náð stórkostlegum árangri í gegnum tíðina með lið Króatíu. Hann þjálfaði liðið fyrst frá 2002 til 2010 og svo aftur frá 2017. Hann hefur gert Króatíu að heims- og Ólympíumeistara auk þess að vinna til fimm silfurverðlauna á heims- og Evrópumótum.