Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Stóð til að ljúka framkvæmdum fyrir 14 mánuðum

23.01.2021 - 19:55
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Óljóst er að hve miklu leyti tryggingar Veitna bæta tjónið vegna vatnslekans í Háskóla Íslands. Framkvæmdum þar sem lögn fór í sundur átti upprunalega að ljúka fyrir fjórtán mánuðum.

Enn er verið að greina hvað fór úrskeiðis þegar kaldavatnsleiðsla við Suðurgötu gaf sig aðfaranótt fimmtudags. „Þetta er töluvert ferli. Það þurfa margir að koma að, starfsfólk Veitna, verktakar, hönnuðir, undirverktakar og fleiri. Við erum að reyna að vinna þetta eins vel og hægt er og líka eins hratt og hægt er því tryggingafélagið þarf að fá upplýsingar frá okkur,“ segir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Veitna.

Rektor Háskólans sagðist í fréttum í gær vona að tryggingar Veitna komi til móts við tjónið í skólanum. Ólöf segir óljóst að hve miklu leyti tryggingar Veitna bæti tjónið vegna lekans. „Veitur eru með ábyrgðatryggingu og tryggingafélagið okkar er að skoða málið,“ segir hún.

Framkvæmdir standa yfir á Suðurgötu þar sem lögnin fór í sundur. Reykjavíkurborg er að endurnýja göngustíga og Veitur lagnir. Framkvæmdirnar hófust sumarið 2019 og átti upprunalega að ljúka 7. nóvember sama ár.

„Það var ákveðið að reyna að halda akstursleiðum eins opnum og hægt væri og leggja lagnirnar undir gangstéttina. Það hefur valdið því að vinnusvæðið er frekar þröngt. Við höfum þurft að fara djúpt niður með lagnirnar og okkur hefur mætt mun meiri klöpp heldur en við gerðum ráð fyrir,“ segir Ólöf.

Þá var verkáföngum snúið við til að tryggja aðgengi að Þjóðminjasafninu sem tafði fyrir, gamlar teikningar af lögnum reyndust rangar og ákveðið var að loka skurðinum í desember árið 2019 fram á vor vegna veðurs. Tjónið tefur enn frekar fyrir verklokum en gert er ráð fyrir að framkvæmdum ljúki í vor.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV