Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

„Menn brenndir eftir síðasta ár“

23.01.2021 - 20:17
Mynd: RÚV / RÚV
Vonskuveður hefur verið á norðan- og vestanverðu landinu síðustu sólarhringa og fjallvegir flestir ófærir. Rýming vegna snjóflóðahættu er enn í gildi á Siglufirði og óvissustig vegna snjóflóðahættu á Norðurlandi og norðanverðum Vestfjörðum. Björgunarsveitir þurftu í gærkvöld að aðstoða á þriðja tug vegfarenda þegar tvö snjóflóð lokuðu Öxnadalsheiði.

Í dag var ákveðið að rýma nokkur atvinnuhúsnæði á Ísafirði eftir að snjóflóð féllu í Skutulsfirði í gær og í nótt. Þá hafa þrjú íbúðarhús verið rýmd á Flateyri, fjórða húsið stendur enn autt eftir snjóflóðið þar í fyrra. Bensínstöðin verður einnig rýmd.

„Þetta eru nú svona sérstakar öryggisráðstafanir sem eru gerðar ekki síst með reynsluna frá því í fyrravetur í huga. Þarna er nú bara, eins og kollegi minn á Norðurlandi orðaði það, verið að tala um að vera með belti og axlabönd,“ segir Hlynur Snorrason, yfirlögregluþjónn á Ísafirði.

Hlynur ræður fólki frá því að ferðast á milli byggðarlaga. „Veðurstofan er náttúrulega með stanslausa vakt og metur stöðuna á hverjum tíma en það má búast við því að þetta muni standa yfir fram á morgun allavega. Veðurstofan tekur stöðuna þá,“ segir hann.

Steinunni Guðnýju Einarsdóttur var gert að yfirgefa heimili sitt fyrir klukkan sex í dag. Hún telur stjórnvöld vilja hafa vaðið fyrir neðan sig. „Eðlilega eru menn brenndir eftir síðasta ár. Við fengum alveg uppvakninguna þá. Þetta er kannski ekkert það skemmtilegasta af því að ef þetta leggur línurnar þá vonum við að við fáum betri varnir,“ segir hún.

Steinunn hefur búið á Flateyri allt sitt líf og segist vera róleg því hún þekki vel til aðstæðna. „Snjórinn á pallinum hjá mér er ekkert í líkingu við það sem var hérna fyrir ári síðan þannig það róar mig. Ef það væri vitlaust veður og að koma heilmikill snjór þá væru meiri ónot í manni en við erum bara voða róleg,“ segir hún.

Fjölskyldan gistir hjá ættingjum í bænum á meðan hún má ekki snúa heim og þau þurftu því lítið að pakka. „Bara snjógallinn og tannburstinn eiginlega. Og linsurnar. Þá er maður nokkuð góður,“ segir hún.