Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Katar vann grannaslaginn gegn Barein

epa08960047 Bahrain head coach Halldor Johann Sigfusson reacts during the Main Round match between Qatar and Bahrain at the 27th Men's Handball World Championship in Cairo, Egypt, 23 January 2021.  EPA-EFE/Mohamed Abd El Ghany / POOL
 Mynd: EPA

Katar vann grannaslaginn gegn Barein

23.01.2021 - 14:44
Barein og Katar áttust við í milliriðli á heimsmeistaramótinu í handbolta í Egyptalandi í dag. Barein, undir stjórn Halldórs Jóhanns Sigfússonar, vonaðist eftir sínum fyrstu stigum í milliriðlinum en þau komu ekki því Katar vann örugglega, 28-23.

Barein tapaði fyrsta leik í milliriðli 2 fyrir Króatíu með tíu marka mun, 28-18, á meðan Katar tapaði fyrir Danmörku með níu marka mun, 32-23. Katar er eftir sigurinn í dag í 3. sæti með 4 stig á eftir Króatíu og Danmörku sem eru með fimm og sex stig í toppsætunum og með leik til góða. Barein er án stiga í botnsætinu.

Barein og Katar þekkja hvort annað inn og út. Fyrir utan að vera nágrannar í Persaflóanum hafa liðin mæst þrívegis í úrslitum Asíukeppninnar í handbolta frá 2014. Í öll skiptin vann Katar en Katarar unnu keppnina svo fjórða skiptið í röð þegar liðið hafði betur gegn Suður-Kóreu á síðasta ári.

Lokaleikur Barein í milliriðli verður gegn Japan á mánudag þar sem Halldór Jóhann og Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Japan, mætast á hliðarlínunni.