Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Hlupu sama hringinn 260 sinnum fyrir Pieta samtökin

23.01.2021 - 19:01
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson
Tveir hlaupagarpar hlupu í dag rúmlega hundrað kílómetra hvor til styrktar Pieta-samtökunum og létu kulda og trekk ekki á sig fá. 

„Þetta bara þrælgengur“

Þeir Gunnar Viðar Gunnarsson  og Börkur Reykjalín Brynjarsson, báðir þaulvanir utanvegahlauparar, lögðu af stað í myrkri klukkan sex í morgun og hlupu sama 400 metra hringinn á Varmárvelli í Mosfellsbæ yfir 260 sinnum á meðan sólin lallaði sína vanabundnu braut á himninum. Fréttastofa náði tali af köppunum í hádeginu þegar þeir voru hálfnaðir. „Heyrðu, þetta bara þrælgengur, við erum komnir 50 kílómetra, já sex tímar,“ sagði Börkur. „Þetta er bara æðislegt ennþá, já við erum bara ansi góðir,“ bætti Gunnar við. 

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson
Hálfnaðir með hlaupið.

Rakst á auglýsingu í Hagkaup

Börkur hafði verið að bræða með sér um nokkurt skeið að efna til áheitahlaups þegar hann rakst á auglýsingu frá Pieta-samtökunum í Hagkaup í Garðabæ. Samtökin sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða. „Þá las ég mér líka til um að það hefur þrefaldast eða fjórfaldast álagið hjá Pieta frá í apríl þannig að ég ákvað að þetta væri rétta félagið til að styrkja.“ 

„Veður er bara hugarfar“

Margir hétu á félagana, aðrir komu og hlupu nokkra hringi þeim til samlætis og styrktu félagið í leiðinni. Kapparnir létu þorraveðrið ekkert á sig fá. „Hitinn er allavega ekki að plaga mann, þetta er góð vindkæling. Veður er bara hugarfar.“ 

Þeir tóku pásu einu sinni á klukkustund og völdu eldsneytið vel. Sviðasultu og flatköku með hangikjöti. Undir kvöld, á sjöunda tímanum, tókst þeim Berki og Gunnari ætlunarverkið. Pieta-samtökin segja söfnunina hafa farið fram úr björtustu vonum.