Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Guðmundur: Voru byggðir með blóði, svita og tárum

Mynd: HSÍ / Facebook

Guðmundur: Voru byggðir með blóði, svita og tárum

23.01.2021 - 19:14
Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari, segir að það hafi verið kærkomið að komast út af hótelinu í dag en landsliðshópurinn skoðaði pýramídana í Giza í dag. Guðmundi var heitt í hamsi í viðtali eftir leikinn við Frakka í gær en hópurinn gerði sér glaðan dag í dag.

„Maður fellur bara í stafi við að horfa á þetta. Þetta var algjörlega stórkostlegt,“ sagði Guðmundur eftir ferðina að pýramídunum í dag. 

„Þessir pýramídar hafa verið byggðir með blóði, svita og tárum og maður vill eiginlega ekki hugsa þá hugsun til enda,“ bætti Guðmundur við sem virðist hafa kynnt sér sögu Pýramídans mikla vel.

„Þetta var stærsta bygging veraldar í 3800 ár. Þetta er stórmerkilegt. Stærstu blokkirnar hafi verið um 80 tonn. Maður veltir því fyrir sér hvernig menn náðu þessu úr námum fyrir 4500 árum,“ segir Guðmundur. 

Strákarnir okkar og starfsfólk landsliðins fóru í dag í fylgd lögreglu að pýramídunum. Fékk hópurinn að njóta þeirra og...

Posted by HSÍ - Handknattleikssamband Íslands on Saturday, January 23, 2021

Viggó ekki með á morgun

Guðmundur segir að Viggó Kristjánsson, sem var frábær í leiknum gegn Frakklandi gær, verði ekki klár í slaginn gegn Noregi á morgun en Viggó meiddist gegn Frökkum. 

„Það eru ekki svo góðar fréttir af Viggó. Við vorum hræddir um að þetta væru mjög alvarlega meiðsli en læknir liðsins telur að þetta sé þó minna en við héldum í gær. En hann verður ekki með á morgun og er frá næstu vikurnar,“ segir Guðmundur.