Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fjögur hús rýmd á Flateyri

23.01.2021 - 15:44
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - Ísafjarðarbær - RÚV
Aukin snjóflóðahætta er á Flateyri og því hefur Veðurstofan lýst yfir hættustigi. Rýma á þrjú íbúðarhús og bensínstöðina. Þá er einnig varað við því að vera á og við höfnina í bænum vegna snjóflóðahættu.

Rýma þarf þrjú íbúðarhús á Flateyri. Það er hús númer 9 og 12 við Ólafstún og hús númer 14 við Goðatún. Þá er dvöl í bensinstöðinni bönnuð og kveikt verður á viðvörunarljósinu við höfnina sem merkir að ekki sé ráðlegt að dvelja þar.Þetta er sagt vera öryggisráðstöfun og að fólk þurfi ekki að óttast. Verið sé að fylgja leiðbeiningum og fyrirmælum en ef eitthvað sé óskýrt sé fólki velkomið að hafa samband við lögregluna á Vestfjörðum í gegnum síma Neyðarlínunnar, 112 eða í einkaskilaboðum á facebooksíðu hennar. Þetta kemur fram á Facebook síðu Lögreglunar á Vestfjörðum.

Flateyrarvegur en enn lokaður vegna snjóflóðahættu. Sama á við um veginn milli Súðavíkur og Ísafjarðar og einnig svk "Skíðaveg" sem liggur frá byggðinni á Ísafirði og upp á gönguskíðasvæðið á Seljalandsdal.

Þá er í gildi, síðan í gærkveldi, rýming atvinnuhúsnæða í Skutulsfirði, tvö hús á svk. Grænagarðsreit, við Skutulsfjarðarbraut, og sorpmóttaka Terra fyrir botni fjarðarins. Hvatt er til þess að fólk sé ekki á ferðinni, að nauðsynjalausu, milli byggðakjarna meðan þessar veðuraðstæður eru.