Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Engar nýjar tilkynningar um alvarlegar aukaverkanir

23.01.2021 - 14:33
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Engar tilkynningar um alvarlegar aukaverkanir eftir seinni bólusetningu með Pfizer-bóluefninu hafa borist til Lyfjastofnunar. Þetta staðfestir Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri stofnunarinnar, í samtali við fréttastofu.

Alls hafa borist 137 tilkynningar um aukaverkanir eftir bólusetningar hér á landi með bóluefnum lyfjafyrirtækjanna Pfizer og Moderna, níu þeirra alvarlegar.

Í síðustu viku fékk fyrsti forgangshópurinn, þar á meðal íbúar á hjúkrunarheimilum, seinni bólusetningu með bóluefni Pfizer og ekki hefur verið tilkynnt um neinar alvarlegar aukaverkanir síðan. Aðspurð hvort hún hefði búist við tilkynningum svo fljótt segir Rúna að eftir fyrri bólusetninguna hafi tilkynningar borist nokkuð fljótt. Fram kom í nokkrum tilkynninganna að fólk hefði látist stuttu eftir að það var bólusett. „Það hefur ekkert svoleiðis verði tilkynnt núna. En þetta er náttúrulega viðkvæmasti hópurinn. Það eru auðvitað mörg andlát á hjúkrunar- og dvalarheimilum hvort sem er,“ segir Rúna.